150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:47]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef meiri hluti velferðarnefndar hefði talið að sú útfærsla sem breytingartillaga hv. þingmanns fjallar um hentaði betur en sú sem við lögðum fram hefðum við lagt hana fram í upphafi. Því er auðsvarað að við teljum þetta skynsamlegustu leiðina af því að þarna tryggjum við lengingu fæðingarorlofsins. Við tryggjum núverandi kerfi sem við erum að innleiða núna með því að breyta skiptingunni þannig að í stað þess að hvort foreldri sé með eyrnamerkta þrjá mánuði verði það með eyrnamerkta fjóra mánuði. Við ætlum að tryggja að það kerfi haldi áfram.

Ég óttast ekki að neitt komi upp á. Við þekkjum samt söguna í þessum sal, stundum hnikast til mánuðir og áætlanir, þó að ég sjái ekkert í þessu máli sem eigi að orsaka það. Þess vegna tel ég þetta algjörlega hættulausa breytingartillögu og bara skynsamlegra að tryggja þetta svona.