150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt.

32. mál
[13:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir framsögu á nefndaráliti með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt. Ég tel að hér sé góð niðurstaða lögð til, að í ljósi innleiðingar nýrra landgræðslulaga, m.a. með setningu reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu, verði málinu vísað til ríkisstjórnarinnar inn í þá yfirgripsmiklu vinnu sem þar fer fram á þessu sviði og er rakin í nefndarálitinu, m.a. GróLind.

Ég kom hingað fyrst og fremst til að rekja aðeins þróunina í landnýtingu. Ég tel öll skref sem stigin eru til bættrar landnýtingar mjög mikilvæg en mín reynsla er sú að á áratugnum 1970–1980 hafi þeir sem nýta landið og ganga mest um það áttað sig á því hversu mikið væri hægt að bæta landnýtinguna og miklum árangri hægt að ná í uppgræðslu. Árið 1990 varð svo til verkefnið Bændur græða landið. Árið 2000 varð landnýtingarhlutinn hluti af samningum um sauðfjárrækt og landnýtingarþátturinn hluti af gæðastýringunni í sauðfjárrækt.

Árið 2016 varð til GróLindar-verkefnið sem er rakið ágætlega í nefndarálitinu. Því er ætlað að styrkja bæði aðferðir við mat á sjálfbærri landnýtingu og stjórnsýslu og eftirfylgni á því sviði. GróLindar-verkefnið er í þróun og þar verða stigin mikilvæg skref alveg á næstunni og eins kemur fram í nefndarálitinu að fyrir ári hafi orðið tímamót þegar sett voru ný landgræðslulög. Verið er að innleiða þau.

Síðan vil ég hnykkja á meginmarkmiði tillögunnar sem er að auka samvinnu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra um landnýtingu. Ég tel þetta mjög mikilvægt innlegg í þá samvinnu sem allir þeir sem láta sig landnýtingu varða hafa kallað eftir, sérstaklega í kringum skógrækt og landgræðslu.