150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt.

32. mál
[13:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég stenst eiginlega ekki mátið að lengja þessa umræðu örlítið og koma í andsvar við hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé. Það er alveg rétt að við unnum vel saman í umhverfis- og samgöngunefnd við að koma þessu svona á laggirnar þannig að aðilar geti vel við unað báðum megin. Mig langar samt að halda því til haga í þinglegri meðferð að ég er ósammála þeim orðum hv. þingmanns að ekki hefði verið hægt að samþykkja tillöguna. Vissulega hefði þurft að færa til dagsetningar og annað slíkt en það er ákveðin ástæða fyrir því að hún var lögð fram.

Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fór ágætlega yfir söguna áðan og það er kannski í ljósi hennar sem við sjáum svo ekki verður um villst að á öllum þessum árum, jafnvel áratugum, sem hefur verið unnið í þessum málum hefur sú breyting orðið núna rétt undir það síðasta að málið er farið að höfða til fleira fólks. Umhverfisverndarsjónarmið eru komin inn af sterkari þunga og svo eru komin inn sjónarmið almennings, ekki bara einhverra heitra umhverfisverndarsinna eða þeirra bænda sem eiga allt sitt undir málinu, heldur eru smám saman farin að opnast augu manna fyrir því að nýting landsins okkar, alveg sama hvaða atvinnugreinar eiga í hlut, þarf að vera í sátt og samlyndi við náttúruna. Allir landsmenn eiga hagsmuna að gæta. — Ég er búin að týna þræðinum núna en það sem ég ætlaði einfaldlega að benda á er að þegar hlutirnir hafa gengið svolítið lengi, hökt í sömu hjólförunum og menn eru einhvern veginn á því að það þurfi að gefa eitthvert olnbogaskot til að ýta þeim áfram — til þess eru svona tillögur gerðar og það er mikil þörf á þeim.

Ég lýsi því yfir samt sem áður, eðli málsins vegna, að ég er á þessari málamiðlunartillögu og ég er mjög sátt við það. Sú niðurstaða að fá þessa tvo ráðherra saman til að vinna að málinu er líklega það besta sem við gátum fengið út úr þessu í sátt og samlyndi allra sjónarmiða (Forseti hringir.) þannig að ég fagna því.