150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í upphafi var eitt og annað ágætt í þessu máli og er það að einhverju leyti enn svo, en þó er það þannig að eftir meðhöndlun nefndarinnar þrengdist mjög ramminn í öllu þessu máli. Þó að einhver skref séu tekin til hagsbóta fyrir neytendur sest engu að síður meiri hluti nefndarinnar enn, og þar með stjórnarflokkarnir, í dómarasæti yfir því hvað sé heppilegt fyrir markaðinn og hvað ekki. Til að mynda hafa stjórnarþingmennirnir ákveðið að ekki sé markaður fyrir viðbót af svínasíðum þrátt fyrir að markaðurinn sjálfur og aukning ferðamanna hingað til landsins segi annað. Það verður að segja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til hróss að hann reyndi þó að koma fram með mál í því efni en stjórnarflokkarnir þrengdu mjög að því og, eins og ég segi, ekki til hagsbóta fyrir neytendur.

Við í Viðreisn munum sitja hjá. Þetta er úrelt nálgun, hún er gamaldags og það er kominn tími til að við breytum landbúnaðarkerfinu í þágu bænda, til að auka frelsi bænda, og styðja neytendur enn frekar.