150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum var í meðförum nefndarinnar þrengt að tímarammanum. Áður hefur líka komið fram að upplýsingarnar sem liggja til grundvallar ákvörðuninni um það hvað eigi að falla innan og utan þessarar tollverndar eru af mjög skornum skammti. Ein af ástæðunum fyrir því að þetta frumvarp var lagt fram er meira að segja sú að ráðuneytið sagði að fyrirkomulagið sem hingað til hefur verið notað stangist á við stjórnarskrána. Þess vegna er náttúrlega gott að fella það út. Þetta er allt saman í skötulíki.

Það sem réttast væri að gera og best fyrir alla aðila, búvöruframleiðendur, neytendur og ríkið, væri að taka þessa tolla niður en færa ígildi stuðningsins sem beinar greiðslur til búvöruframleiðenda. Mikið tap á sér stað. Skaðinn sem neytendur verða fyrir vegna tollverndarinnar skilar sér hlutfallslega lítið til búvöruframleiðendanna versus það að tekinn verði (Forseti hringir.) þessi skattur og teknir þessir tollar á öðrum forsendum, kannski í virðisaukaskattinum. Það myndi skila sér í lægra matvælaverði fyrir landsmenn. Það yrði meiri stuðningur við búvöruframleiðendur og allir myndu græða. Það er framtíðin.