150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessu máli varðandi tolla og fleira gerði atvinnuveganefnd góðar breytingar á málinu til hagsbóta fyrir bændur, neytendur og íslenska matvælaframleiðslu. Við ætlum að efla og auka matvælaframleiðslu, hvort sem er í kjöti, grænmeti eða hverju öðru sem við getum ræktað hérna heima. Það fellur undir loftslagsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að auka sem mest innlenda framleiðslu og styrkja hana, að við neytum sem mest fæðu sem er framleidd í nærumhverfi okkar. Þetta er hluti af því. Við breytum gömlu og úreltu fyrirkomulagi í fyrirsjáanlegt fyrirkomulag og hlustum á rökstudda gagnrýni á málið af hálfu garðyrkjubænda og líka þeirra sem eru í framleiðslu á svínakjöti. Við fellum út óþarfainnflutning á svínakjöti en horfum til þess ef þarf að mæta því. Þá verður bara komið með nýtt mál.

Þetta er mjög gott mál eftir breytingarnar sem hafa verið gerðar á því.