150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Eins og ég vísaði til í ræðu um þetta mál sendi Jörmundur Ingi allsherjargoði inn erindi þegar þetta kirkjujarðasamkomulag var samþykkt 1997 þar sem kemur fram að grundvöllur þessarar lagasetningar sé, með leyfi forseta, „drög að samkomulagi milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um yfirfærslu kirkjujarða til ríkisins“.

Jafnframt kemur fram, með leyfi forseta:

„Eignarhald á kirkjujörðum mun vera nokkuð á reiki. Tilheyra þær hverri kirkju fyrir sig eða söfnuðunum eða prestakallinu? (sbr. bréf biskups til Alþingis 15-1-1907). Eitt mun vera nokkuð ljóst, þær tilheyra ekki kirkjunni sem stofnun.“

Þegar ég talaði við lögfræðing þingflokks Pírata um þetta mál kom í ljós að ekki er til listi yfir þær eignir sem voru færðar til ríkisins, en allar eignir eru skráðar á Íslandi og sagan um hver átti þær. „Basically“ framseldi þá kirkjan sem stofnun jarðirnar sem söfnuðirnir áttu ríkinu (Forseti hringir.) og hafði ekki heimild til þess. Það er eignarnám. Við munum halda áfram að kalla eftir upplýsingum um það hver átti raunverulega þessar eignir. Það var ekki kirkjan sem stofnun samkvæmt þessu.