150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy hans einföldu spurningar sem eru kannski ekki svo einfaldar af því að auðvitað tel ég að þær stofnanir sem við eigum hafi allar verið að vinna samkvæmt bestu vitund og þekkingu. Það liggur fyrir, af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um varaaflstöðvarnar og hvenær farið var að fjarlægja þær, að það hefur verið vinnulag að fjarlægja slíkar stöðvar þegar innviðir eru taldir nægjanlega sterkir til að það sé ekki þörf á þeim. Af því að við erum að ræða um Norðurland þá sáum við það til að mynda gerast í Húnavatnssýslunum upp úr árinu 2000 að þá var verið að vinna að tengingum þessara svæða, bættum tengingum, og þá eru þessar stöðvar teknar. Við sjáum það núna að það var ekki endilega rétt, en ég tel að þetta hafi verið gert samkvæmt bestu þekkingu á sínum tíma, menn töldu einfaldlega að þessir innviðir myndu duga. Þetta þarf að fara yfir.

Sömuleiðis vil ég ræða fjarskiptin. Við erum auðvitað með ólík símafyrirtæki en það sem gerist núna er að þau opnuðu á milli sinna senda til að bæta fjarskipti. Þar sem eitt símafyrirtæki datt út þá opnaði annað símafyrirtæki fyrir fjarskiptin. Nú ætla ég ekki að þykjast vera sérfræðingur í þessu en þau unnu saman til þess að bæta sambandið. Við þurfum að greina það hvort þörf sé á einhverjum bótum þar þegar kemur að fjarskiptum þannig að kerfið virki sem best skyldi.

Þetta eru nefnilega ekkert flóknar spurningar hjá hv. þingmanni en það breytir því ekki að við höfum núna tækifæri, af því að ég lít líka á það sem ákveðið tækifæri fyrir innviðauppbyggingu, að greina þessa veikleika og byggja upp þannig að við séum að setja fyrir þá leka sem kunna að vera í núverandi kerfi og koma í veg fyrir, þó að við getum aldrei komið í veg fyrir að svona veður skella á aftur, að afleiðingarnar verði jafn miklar og raun ber vitni nú.