150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að skýringar hv. þingmanns og framsögumanns þessarar breytingartillögu eru farnar að minna á þær bestu skýringar sem maður hefur séð úr Já, ráðherra þáttunum. (Gripið fram í.) Ég er engu nær um hvað verið er að fara með þessu. Mér finnst vandræðagangur meiri hlutans í málinu alveg ótrúlegur. Ríkisstjórnin lagði fram metnaðarfulla aðgerðaáætlun í jafnréttismálum, hún var í vinnslu í allt haust í þinginu, við samþykktum hana samhljóða í gær og hún fól í sér ákvæði um fimm plús fimm plús tveir. Eins og greinilega er komið í ljós var ekki meiri hluti fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að fara þessa leið. Þetta var bara eitthvert leikrit og svo átti greinilega að reyna að útfæra það með einhverjum öðrum hætti. Þá er vissulega til bóta að ekki sé verið að lögfesta fjórir plús fjórir plús fjórir að óbreyttu nema með einhverjum hætti verði gripið inn í en það er ekki hægt að túlka þessa breytingartillögu meiri hluta velferðarnefndar öðruvísi en svo að þegar á hólminn var komið, daginn eftir sem sagt, hafi ekki verið meiri hluti innan ríkisstjórnarinnar fyrir því sem við samþykktum í gær, að klára lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði með skiptingunni fimm plús fimm plús tveir. Það eru dálítið sérstök skilaboð til hæstv. forsætisráðherra sem mælti fyrir þeirri aðgerðaáætlun.

Ég hlýt að fagna því eins og aðrir hér gera væntanlega að við séum að lögfesta 12 mánaða fæðingarorlof en mér finnst þetta algjörlega fáránleg afgreiðsla, ég verð að viðurkenna það. Ég skil ekki hvað stjórnarmeirihlutinn er að fara með þessu, hvernig hann getur ekki staðið við það sem hann samþykkti einróma í þinginu í gær. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)