150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér alveg frábært mál, lengingu fæðingarorlofs. Geggjað! Ég held að við getum öll verið sammála um það. Ég held að nánast hver einasti flokkur hafi verið með það á stefnuskrá sinni að lengja fæðingarorlofið. Nú þegar höfum við hækkað þakið og þannig vonandi haft þau áhrif að karlmenn og kvenmenn taki fæðingarorlof nokkurn veginn til jafns. Við ætlum að lengja það í tíu mánuði á næsta ári og svo í 12 mánuði á þarnæsta ári. Mér finnst þetta mál frábært og ég ætla að taka gilda afsökunarbeiðni hv. þm. Ólafs Þórs um að hafa flækt þetta mál svolítið. Mér leið áðan eins og við værum að ræða um einhverja liðaskiptingu í knattleik sem ég kann ekkert á. Fjórir, fjórir, fjórir; sex, sex; þrír, þrír, þrír — þetta var orðið mjög flókið en þetta er í grunninn auðvitað ekki flókið mál. Þetta er bara frábært mál og fyrst og fremst mál um réttindi barna og fjölskyldna en svo er þetta líka gríðarlega stórt jafnréttismál. Það hefur haft mjög mikið um jafna stöðu kynjanna á atvinnumarkaði að segja þannig að þegar við settum á fæðingarorlof á sínum tíma með þeim reglum sem við gerðum stigum við alveg risastórt skref í þessum sal. Ég var því miður ekki þátttakandi í því en einhverjir hér inni voru það sannarlega.

Það er ágætt að muna í þessu samhengi að í morgun fengum við þær fréttir að ellefta árið í röð væri Ísland í 1. sæti hvað kynjajafnrétti varðar. Þetta eru tölur frá World Economic Forum. Það er ekkert krúttlegt við þetta jafnréttismál, þetta er bara blákalt efnahagsmál og risastórt mannréttindamál. Við erum meira að segja farin að líta á jafnréttismál sem útflutningsvöru. Þetta er hluti af þróunaraðstoðinni okkar og við höfum mjög góða sögu. Auðvitað eigum við að halda áfram að segja þessa góðu sögu, það hvernig við styðjum best við fjölskyldur og börn í landinu og hvernig fólk getur verið í mjög misjöfnum aðstæðum þegar kemur að því að taka fæðingarorlof. Ég vil bara sjá niðurstöður frá þessum starfshópi og sjá hvað hann leggur til. Þess vegna segi ég: Getum við ekki lokið þessari umræðu með því að vera ofboðslega kát með það að við erum að lengja fæðingarorlofið? Það er það sem allir vildu og nú ætlum við að taka okkur tíma í að finna bestu leiðina þegar kemur að því að skipta þessum mánuðum á milli foreldra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)