150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við hv. þingmaður og ég held þingheimur allur séum sammála um það hversu frábært málið er. Stóra málið er að við séum að lengja fæðingarorlofið. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki af hverju við erum í þessari hringavitleysu og ég held að þetta sé svolítið heimatilbúið vandamál hjá okkur. Það er ekki þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skipt um skoðun á einum sólarhring en ég skal alveg viðurkenna — ég er reyndar ekki í hv. velferðarnefnd sem hefur fjallað um þetta mál — að ég hef ekki mótað mér skýra skoðun á því hver sé besta leiðin. Ég viðurkenni það. Mér finnst mjög mikilvægt að við lengjum fæðingarorlofið og sömuleiðis að við höldum áfram að vera í 1. sæti þegar kemur að jafnréttismálum. Hvort þá sé best að hafa fimm, fimm, tveir eða sex, sex eða fjórir, fjórir, fjórir er ég ekki viss um. Mismunandi umsagnir hafa komið um þetta mál frá verkalýðshreyfingunni og fleirum. Það er engin ástæða vegna þess að við förum ekki lengra á næsta ári, kannski því miður. Ég vorkenni helst þeim börnum sem munu fæðast 31. desember en það er önnur saga. Alltaf verða einhvers staðar að vera skil þegar kemur að svona lögum. (Forsrh.: Það er frábært að vera …) Já, reyndar, hæstv. forsætisráðherra, ég er sjálf fædd 29. desember og þetta eru mjög góðir dagar. (Gripið fram í.)

Ég sé enga ástæðu til þess að við séum í einhverri hringavitleysu hér. Fáum inn allar þessar umsagnir, heyrum hvað starfshópurinn segir og komumst svo að niðurstöðu um hver sé besta leiðin. Í þessum sal hefur líka verið spurt um stöðu einstæðra foreldra. Staða foreldrar getur verið svo misjöfn og auðvitað þurfum við að hlusta á það. Gefum okkur tíma í það og fögnum þessu frábæra máli, samþykkjum það hið fyrsta og förum að slíta þessum þingfundi.