150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að láta það fylgja sögunni að þetta kjörtímabil, 2009–2013 byrjaði með, minnir mig, 120 milljarða kr. halla og hann var núll akkúrat þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við. Mig langar bara að minna á að það er ekki Sjálfstæðisflokknum að þakka að hér sé ríkissjóður í lagi. Auðvitað kostaði þetta alveg gríðarlega fórnir fyrir almenning og fyrir ríkið og stjórnmálamenn, enda aðstæður þannig.

En aftur að forgangsröðuninni þegar kemur að stjórnarskrármálum. Ég og Píratar eigum okkur mjög mörg málefni, andstætt því sem sumir segja. Þau eru hvert öðru mikilvægari. En þegar kemur að því að koma málunum sem við viljum sem stjórnmálamenn koma í gegn skiptir máli að undirstöður stjórnarfarsins séu reistar á góðum grunni. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að við sameinumst, þeir stjórnmálamenn sem eru yfir höfuð til í nýja stjórnarskrá, um að það sé mikilvægasta málið vegna þess að á þeim grunni munum við síðan byggja ákvarðanir sem geta t.d. náð þeim markmiðum sem hv. þingmaður talar svo glæsilega um. Sumar ákvarðanir eru þannig að við erum ekki sammála um þær. (Forseti hringir.) En það er undirstaðan, stjórnarskráin sjálf, sem varðar lýðræðislegt umboð, gagnsæi í ákvarðanatöku og þess háttar og þess vegna er hún svo mikið grundvallaratriði áður en við komum að þeim málefnum sem okkur hugnast, kannski, skulum við segja, í dægurstjórnmálunum.