150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[14:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tel þau fullnægjandi. Hvað varðar persónuverndaratriðin myndi ég halda að það ætti að duga að fara þá leið sem hæstv. ráðherra hefur farið, að ræða við persónuverndarfulltrúa Stjórnarráðsins og ætti að duga til að tryggja það að lögin taki nægt tillit til persónuverndarlaga, í kjölfar GDPR-lagasetningarinnar sem við samþykktum á dögunum. Hitt er síðan að málið fer væntanlega til allsherjar- og menntamálanefndar ef ég man rétt — nei, fer víst ekki þangað. Gott og vel, en ég geri fastlega ráð fyrir því að kallað verði eftir umsögn frá Persónuvernd sem getur þá lýst skoðun sinni ef eitthvað má betur fara. Ég tek svar hæstv. ráðherra bara gott og gilt og fjalla ekki nánar um það að svo stöddu.

Hvað varðar samþykkt Sameinuðu þjóðanna um farendur þá ætla ég að fjalla betur um það í ræðu á eftir en þar er um að ræða samþykkt sem var hugsuð til þess að reyna að búa til betra skipulag í ljósi þess að á seinustu árum hefur verið svokölluð krísa vegna farenda eða flóttamanna og hælisleitenda, sér í lagi vegna atburða í Sýrlandi en einnig víðar, ástand sem mun versna og verða alvarlegra í framtíðinni vegna loftslagsbreytinga. Það er alveg fyrirséð og í raun og veru óumdeilt, eftir því sem ég best veit, að það verður meira um slík vandamál í framtíðinni á næstu áratugum. Því er mikilvægt að við tökumst á við þá staðreynd frekar en að reyna að stinga höfðinu í sandinn og láta eins og einhvern veginn sé hægt að Ísland sleppi frá því vandamáli. Það er ekki þannig. Við þurfum að takast á við það. Sú samþykkt felur meira í sér en kannski þetta frumvarp en það ber þó alla vega keim af því að stjórnvöld séu að starfa að eigin frumkvæði í samræmi við þá góðu samþykkt Sameinuðu þjóðanna og því kem ég til með að styðja þetta mál.

Ég hef svo sem ekki frekari spurningar til hæstv. ráðherra ef út í það er farið. En ég fagna því alltaf þegar stjórnvöld sýna viðleitni gagnvart (Forseti hringir.) móttöku flóttafólks því að við þurfum að taka á móti þeim hvort sem okkur líkar betur eða verr. Spurningin er hvort eigi að gera það vel eða ekki.