150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:00]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, með síðari breytingum, þ.e. þann þátt sem snýr að móttöku flóttafólks og innflytjendaráði. Frumvarp þetta er kærkomið af ýmsum ástæðum sem við fjöllum kannski örlítið um síðar. Það kallast á við tvær þingsályktunartillögur sem fjallað var um á 149. þingi. Það er annars vegar þingsályktunartillaga okkar í Samfylkingunni, sem er lögð fram á þessu þingi öðru sinni, fékk ekki framgang á hinu fyrra, um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu. Hin var tillaga til þingsályktunar um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé var 1. flutningsmaður að. Það var stjórnartillaga og hún fékk framgang og var samþykkt sem tillaga Alþingis. Hvort tveggja eru þetta prýðilegar tillögur og vonandi nær tillagan sem ekki fékk framgang á 149. þingi eyrum og fær samþykki því að hún fjallar um málefni þess hóps sem um er rætt hér á heildstæðan hátt, allt frá því að fjallað er um viðmót, móttöku, fræðslu og kynningu á landi og þjóð og aðstoð við að læra á alla stigu þess, menntun, atvinnu og velferð.

Virðulegur forseti. Talsverð umræða hefur verið á undanförnum misserum um að mikilvægt sé að bæta þá umgjörð sem lýtur að málefnum innflytjenda. Það á bæði við um hina almennu umgjörð í samfélaginu og stofnanaumgjörð innflytjendamála, Útlendingastofnun, Fjölmenningarsetur, þá stofnun sem hefur verið stjórnvöldum til halds og trausts varðandi aðlögun innflytjenda að samfélaginu, og það á líka við um þróunarsjóð innflytjendamála. Allt þetta er sprottið af þeirri viðleitni að hlúa betur að verkefnum í þessum mikilvæga og vaxandi málaflokki.

Fjölmenningarsetur tók til starfa um mitt ár 2001 og hlutverkið var síðan fest í lög með lögum um málefni innflytjenda á árinu 2012. Fjölmenningarsetur hefur það hlutverk að greiða fyrir samskiptum fólks af ólíkum uppruna og efla þjónustu við innflytjendur sem búsettir eru hér og eru að flytja til landsins. Þessi stofnun hefur veitt stjórnvöldum, stofnunum og fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við þau verkefni að taka á móti og fjalla um hagsmunamál innflytjenda. Fjölmenningarsetur miðlar líka upplýsingum til innflytjenda um réttindi þeirra og skyldur, fylgist með þróun innflytjendamála í þjóðfélaginu, m.a. með upplýsingaöflun og rannsóknum, greiningu og upplýsingamiðlun og gefur út niðurstöður sínar og þær er að finna á aðgengilegan hátt. Þar hefur verið unnið gott starf en við þurfum að gera enn betur og er nú unnið að því með þessu ágæta frumvarpi.

Hjá Fjölmenningarsetri hefur verið hægt að leita eftir upplýsingum um margt er varðar daglegt líf á Íslandi fyrir nýbúa, þá sem eru að koma til landsins, um stjórnsýsluna og leita eftir aðstoð varðandi flutning til og flutning frá Íslandi. En þetta frumvarp sem nú liggur fyrir felur í sér nokkrar breytingar. Fjölmenningarsetri er ætlað víðtækara hlutverk en áður og það er svo mikilvægt að talin er ástæða til að festa það í lög. Unnið verður að því að samræma enn frekar móttöku flóttafólks og þess vegna vilja menn efla stofnunina, þannig að hún geti tekist á við þetta verkefni. Því er ekki að leyna að Fjölmenningarsetur hefur búið við mjög þröngan kost mörg undanfarin ár og sannast sagna verið álitamál hvort stofnunin lifi af eða deyi. Eins og kunnugt er er stofnunin staðsett á Ísafirði sem er ágæt lausn þó svo að ljóst sé að flestir sem sækja um alþjóðlega vernd t.d. dvelja á höfuðborgarsvæðinu eða á Suðurnesjum. Við höfum miklu fleiri innflytjendur og þeir eru dreifðir um allt land þótt það liggi í augum uppi að flestir búa auðvitað á suðvesturhorninu.

Eins og áður er nefnt er talin ástæða til að lögfesta inn ný verkefni. Þar með eru tryggðar heimildir fyrir stofnunina til að vinna með persónuupplýsingar og miðla þeim samkvæmt því sem ákvæði laganna um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga segja til um. Þetta er nauðsynlegt í hagnaðarskyni fyrir innflytjendur sjálfa. Til að Fjölmenningarsetur geti tekist á við þetta aukna hlutverk þarf auðvitað að bæta við mannskap og styrkja grundvöllinn fyrir stofnunina. Það er mitt álit að það þurfi að gerast bæði á Ísafirði og á höfuðborgarsvæðinu. Mér þykir óskaplega jákvætt að hæstv. ráðherra tekur þann pól í hæðina að efla Fjölmenningarsetur og nýta sér þá reynslu og þekkingu, þann auð sem býr í þeirri stofnun til að efla starfið á landsvísu. Það er nokkuð ljóst að það þarf að koma á laggirnar starfsstöð einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu til þess að stofnunin geti rækt hlutverk sitt sem allra best því að fulltrúar í Fjölmenningarsetri munu með einum eða öðrum hætti þurfa að hitta flóttafólk augliti til auglitis. Það liggur í hlutarins eðli og þarf ekki að skýra hér og nú. Það þarf að vinna úr málefnum þeirra í samráði við viðkomandi, velja móttöku sveitarfélaga o.s.frv. Það eru ótal margir þættir af því tagi sem eru mikilvægir, viðkvæmir og þarf að vinna af nákvæmni og fagmennsku. Því er svo ekki að neita að ótal margt fleira í samskiptum við innflytjendur er hægt að gera með rafrænum hætti, með fjarvinnslubúnaði og skeytasendingum og með því að leita á vefinn, því að Fjölmenningarsetur stendur fyrir ágætum upplýsingum á vefsíðu sinni.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að áætlað sé að auka við stofnunina, Fjölmenningarsetur, sem nemur tveimur stöðugildum til lengri tíma litið og það bætist eitthvað í kostnað vegna starfsmanna í Reykjavík. Ég held að þetta sé varlega áætlað því að umfang þessarar þjónustu mun koma til með að aukast og eins og kom fram hjá hv. þingmanni og ræðumanni hér áðan, Helga Hrafni Gunnarssyni, er gríðarlega mikilvægt að við vöndum til verka. Það mun skila sér með beinum hætti til farsældar fyrir samfélagið og innflytjendur, nýbúana sem velja sér Ísland eða þar sem Ísland verður hlutskipti þeirra sem búsetusvæði til lengri eða skemmri tíma.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp, sem miðar að því að samræma og bæta það viðmót sem bíður innflytjenda á Íslandi, af hvaða ástæðum sem þeir svo sem flytjast hingað, er af hinu góða. Ég leyfi mér að vona að það verði að veruleika á þessu þingi. Við erum að fjalla um málefni sem snerta drjúgan hluta þeirra sem búa í þessu landi eða nærfellt 50.000 talsins. Innflytjendur eru um 50.000 eða rúmlega 14% af mannfjöldanum í landinu. Það segir hér í frumvarpstextanum að lög þessi öðlist þegar gildi og ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra áðan betur en svo að fjármagn til að hrinda verkefnum í framkvæmd, a.m.k. fyrsta kastið, sé þegar tryggt og það er vel.