150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Tölur eru lítið án samhengis. Lítum á fjórar staðreyndir.

Vissuð þið að kostnaðurinn við að reka bráðamóttöku Landspítalans er um 4,7 milljarðar kr. sem er lægri upphæð en það sem veiðileyfagjöldin hafa lækkað síðan þessi ríkisstjórn tók við?

Vissuð þið að þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að lækka bankaskatt um 8 milljarða kr. á sama tíma og ástandinu á Landspítalanum hefur verið lýst sem neyðarástandi af hálfu starfsfólks og sjúklinga?

Vissuð þið að eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar er að afnema sérstaklega skatt af stórfyrirtækjum sem vilja kaupa stór skip? Hér er ég ekki að grínast, herra forseti, og á sama tíma þurfa yfir 100 eldri borgarar að búa á spítalanum vegna skorts á hjúkrunarrýmum.

Vissuð þið að raunaukningin til Landspítalans, að teknu tilliti til fólksfjölgunar á valdatíma þessarar ríkisstjórnar, er bara 5%?

Herra forseti. Eru 5% stórsókn? Gengu Svandís, Bjarni og Lilja til kjósenda fyrir þremur árum og sögðu: Ef þið kjósið okkur munum við setja 5% til viðbótar til spítalans á þremur árum?

Í þessu samhengi myndi flest fólk spyrja: Ætti ekki að byrja á að bjarga bráðamóttöku spítalans af öllum stöðum áður en komið er að stórútgerðinni og bönkunum? Peningarnir virðast vera til en því miður höfum við ekki rétt stjórnvöld. Ef ekkert breytist breytist ekkert. Það þarf ekki fleiri nefndir, heldur bara efndir.