150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[17:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Voru aldrei teknar slæmar ákvarðanir áður fyrr? Eða að forsendur fyrir ákvörðunum sem voru einu sinni teknar úreldist? Rök sem áður voru góð og gild eru einfaldlega ekki til lengur af því að samfélagið breytist og þróast? Miðað við rök hv. þingmanns hefði þá einfaldlega ekki átt að hætta þessum gjafagjörning árið 1997 þegar kirkjujarðasamkomulagið var komið og eignin komin að fullu til ríkisins? Þess vegna spurði ég hvers vegna í ósköpunum við ættum núna, á sama tíma og við erum að borga óendanlega mikið fyrir að hafa fengið allar þessar kirkjujarðir, að gefa þær til baka.