150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

56. mál
[19:33]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Eitt lítið og stutt mál sem er einfaldlega um að 2. málsliður 2. mgr. 10. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof falli brott og að breytingin öðlist þegar gildi. Setningin sem er lagt til að falli brott er þessi:

„Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn.“

Þessu var áður breytt með lögum nr. 90/2004 þar sem það var lengt úr einni viku í tvær. Það sem vantar er ákveðinn sveigjanleiki í töku fæðingarorlofs. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, er kveðið á um þann lágmarkstíma sem starfsmanni er heimilt að taka fæðingarorlof. Í 10. gr. laganna segir að aldrei megi taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn, en með þessu frumvarpi er takmörkunin á því hversu stuttan tíma er hægt að taka fæðingarorlof felld úr gildi. Slík takmörkun er óþörf, enda er fæðingarorlof alltaf tekið í samráði við vinnuveitanda. Þegar starfsmaður telur sig hafa hag af því að taka fæðingarorlof í svo stuttan tíma er rétt að sá möguleiki sé til staðar og líka þá sá sveigjanleiki að geta t.d. tekið þrjá daga í viku í fæðingarorlof en ekki samfellda, jafnvel þrjá daga hálfan daginn í senn eða eitthvað því um líkt.

Í rauninni ætti löggjöfin ekki að skipta sér of mikið af samtali þess sem er að taka fæðingarorlof og vinnuveitanda heldur bara gefa þann möguleika að jafnvel sé hægt að skipta dögum innan viku á milli þeirra sem eru að taka fæðingarorlof og sjá um barnið.