150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Nú þegar mannkynið stendur frammi fyrir sínu stærsta sameiginlega verkefni sem er að vinna gegn hlýnun jarðar þarf að meta allar áætlanir og stefnur, áhersluefni og forgangsröðun með það stóra verkefni í huga. Svo árangur náist í baráttunni við hlýnun jarðar og súrnun sjávar þarf pólitískan vilja og kjark stjórnvalda til að setja fram framsækna stefnumörkun og til að framkvæma. Þar er matvælastefna afar mikilvæg vegna þess að ein af aðgerðunum sem munu hafa úrslitaáhrif í baráttunni gegn hlýnun jarðar er breyttar neysluvenjur fólks. Stefna íslenskra stjórnvalda varðandi kolefnisspor matvæla á Íslandi þarf því nauðsynlega að vera skýr, t.d. þarf að meta sérstaklega innlenda grænmetisframleiðslu í samanburði við innflutt grænmeti.

Í Bændablaðinu kom fram á dögunum að samkvæmt úttekt sem verkfræðistofa gerði fyrir Samband garðyrkjubænda er kolefnisspor íslensks grænmetis allt niður í 26% af því sem innflutt grænmeti skilur eftir sig. Þetta eitt sýnir að mikill umhverfisávinningur væri af aukinni innlendri framleiðslu á grænmeti.

Markmiði stjórnvalda um kolefnisjöfnun verður ekki náð nema með víðtækum aðgerðum á mörgum sviðum og liður í því ætti að vera að efla innlenda grænmetisframleiðslu til að draga úr mikilli kolefnismengun sem hlýst af innflutningi. Með því fengist einnig gjaldeyrissparnaður, aukið fæðuöryggi, styrking byggða og aukin atvinna. Í matvælastefnu þarf m.a. að leggja til leiðir til að ýta undir íslenska grænmetisframleiðslu, setja inn jákvæða hvata, svo sem styrki til kaupa á betri búnaði, sparneytnari lýsingu, styrki til að hækka gróðurhúsin sem fyrir eru svo afköstin verði meiri, betra öryggi um styrki vegna raforkuflutninga og byggja kynslóðabrú til að tryggja framleiðslan viðhaldist, svo eitthvað sé nefnt hér í þessari umræðu.