150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[18:35]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Herra forseti. Hér er að mínu viti komin fram mjög metnaðarfull tillaga til þingsályktunar að framtíðarskipulagi sveitarfélaganna. Í langan tíma hefur verið rætt um sameiningar sveitarfélaga og hvernig framtíð við sjáum fyrir okkur varðandi stærð og fjölda sveitarfélaga í landinu. Ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar og komið upp og að mínu mati er sú tillaga sem hér er lögð fram skynsamleg, enda mikilvægt að framtíðarsýn náist í þessu mikilvæga máli. Ég get tekið undir þau 11 markmið sem koma fram í aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023 í tillögunni:

1. Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga. Að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni.

2. Fjárhagslegur stuðningur. Að stórauka stuðning við sameiningu sveitarfélaga.

3. Tekjustofnar sveitarfélaga. Að styrkja þá og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra.

4. Fjármál og skuldaviðmið. Að tryggja sjálfbærni fjármála sveitarfélaga og lækkun skuldaviðmiðs sveitarstjórnarlaga fyrir A- og B-hluta reikningsskila sveitarfélaga. — Ég kem aðeins inn á þetta á eftir.

5. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga. Að mótuð verði aðgerðaáætlun um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.— Það er mál sem hefur verið rætt mikið meðal sveitarfélaganna á undanförnum árum.

6. Landshlutasamtök sveitarfélaga og samvinna þeirra. Að skýra stöðu og hlutverk landshlutasamtakanna. — Kallað hefur verið eftir þessu í mjög mörg ár og því ber að fagna að það sé komið inn í þessa aðgerðaáætlun.

7. Samskipti ríkis og sveitarfélaga. Að gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaga og rétt þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð, svo sem verkefnum og fjárhag.

8. Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Að bæta þær og gæta að kynjajafnrétti sveitarstjórnarfólks. — Það er enn eitt málið sem sveitarfélögin eru búin að ræða mjög mikið síðustu ár og er rætt á hverju einasta þingi sambandsins ef ég man rétt.

9. Lýðræðislegur vettvangur. Að bæta aðkomu almennings að ákvarðanatöku og stefnumótun á sveitarstjórnarstiginu.

10. Stafræn stjórnsýsla. Að bæta aðgengi almennings að þjónustu og stjórnsýslu sveitarfélaganna, bæta samskipti og tryggja gott flæði upplýsinga.

11. Fjölgun opinberra starfa. Að auka fjölbreytni í atvinnulífi um allt land og bæta forsendur fyrir jöfn tækifæri sveitarfélaga óháð stærð og staðsetningu til sjálfbærs vaxtar.

Þessari framtíðarsýn er ég algjörlega sammála og ég fagna henni enda löngu tímabært að koma fram með langtímaframtíðarsýn fyrir sveitarfélögin í landinu. Að mínu mati er mikilvægt að sveitarfélögin á Íslandi eflist og stækki og verði þar með betur í stakk búin til að veita íbúum betri þjónustu en þau gera í dag.

Ég er meðvitaður um að stærðin skiptir ekki öllu máli þegar kemur að þjónustu en þó verður ekki hjá því komist að líta á það að í sumum tilfellum gerir hún það. Sameiningar í Skagafirði fyrir um 20 árum, svo ég líti mér nálægt, gengu vel og ég hef ekki heyrt neinar raddir um að menn vilji snúa aftur af þeirri braut þó að málið hafi verið umdeilt á sínum tíma og skoðanir skiptar. Ljóst er að þær framkvæmdir sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum í Sveitarfélaginu Skagafirði hefðu t.d. verið illgerlegar í því landslagi sem var fyrir sameiningu og alveg ljóst að þessar framkvæmdir hafa stóraukið þjónustu og lífsgæði íbúa á þessu svæði.

Á aukaþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var 6. september 2019 var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta að fara í þá vegferð sem hér er lögð til. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur sömuleiðis gefið jákvæða umsögn um málið. Því er ljóst að málið hefur mikinn hljómgrunn meðal sveitarstjórnarmanna þó að auðvitað séu á því skiptar skoðanir enda um stórt mál að ræða fyrir sveitarfélögin í landinu.

Fyrr í dag var rætt um það hvernig staðið hefði verið að ákvörðun á landsþinginu um samþykkt þessarar ályktunar. Ég var á umræddu þingi og mér er ljúft og skylt að upplýsa að það var gert með eins lýðræðislegum hætti og hægt er. Málið var tekið fyrir og rætt og um það voru greidd atkvæði. Ég veit ekki hvernig er hægt að taka ákvörðun um þetta mál á þessum vettvangi á lýðræðislegri hátt. Í þessu felst auðvitað að einhverjir urðu undir og að einhverjir voru ósáttir en þannig virkar lýðræðið þar alveg eins og á Alþingi Íslendinga.

Varðandi tillöguna um íbúafjölda og hvort talan eigi að vera 250 eða 1.000, eða 8.000 eins og hefur verið rætt um hér og var viðmiðið um málefni fatlaðs fólks, er rétt að benda á að í tillögunni eru undanþáguheimildir og t.d. þarf að líta til landfræðilegra og félagslegra þátta í því tilfelli líkt og var gert varðandi íbúafjöldann í byggðasamlaginu um málefni fatlaðs fólks. Þarna er því svigrúm sem er hægt að nýta og þarna er verið að opna glufu á að litið sé til landfræðilegra og félagslegra þátta sveitarfélaganna.

Ég fagna þeirri breytingu sem hér er komin um að skoðuð verði betur sú tillaga að lækka skuldaviðmið A-hluta sveitarsjóða í 100%. Mörg sveitarfélög hafa gengið í gegnum miklar hagræðingaraðgerðir á síðustu árum til að komast undir 150% skuldaviðmið. Mikil uppsöfnuð framkvæmdaþörf hefur skapast innan þessara sveitarfélaga og með sameiningu verður mögulega frekari þörf á framkvæmdum þannig að ég tel ekki skynsamlegt að þrýsta viðmiðinu niður í 100% að svo stöddu heldur eigum við aðeins að sjá hvert þetta mun leiða okkur. Það er ljóst að ef við ætlum að keyra þetta niður í 100% munu mörg sveitarfélög lenda í miklum vandræðum með uppbyggingu innviða.

Hér hefur líka verið rætt um skuldahlutfall minni sveitarfélaga, að það sé í mörgum tilfellum betra en hjá þeim stærri. Í því samhengi er allt í lagi að benda á að í mörgum tilfellum hefur uppbygging á þjónustu farið fram í stærri nágrannasveitarfélögum sem hafa þurft að skuldsetja sig til að standa undir kröfum íbúa um þjónustu sem sveitarfélagið á að veita þeim. Ég veit að þetta er ekki algilt en þetta er svona í mörgum tilfellum og því er mikilvægt að þegar menn tala um að skuldahlutfall minni sveitarfélaga sé betra en þeirra stærri hafi þeir þetta bak við eyrað og átti sig á að þetta er í mörgum tilvikum raunin.

Ég vil líka árétta þá skoðun mína varðandi tekjustofna sveitarfélaganna, eins og hefur komið fram í máli Sambands íslenskra sveitarfélaga og sömuleiðis var það mjög skýrt á aukaþingi sambandsins þann 6. september, að það fé sem er ætlað til þess að koma til styrkingar úr jöfnunarsjóði til stuðnings sameiningu verði nýtt fjármagn en ekki tekið af þeim fjárframlögum sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar í dag. Þetta er mjög stórt mál og ég hvet fólk til að skoða mjög vel að það verði gert svona en að fjármagn verði ekki tekið úr sameiginlegum sjóðum sveitarfélaganna í þetta verkefni.

Gangi þetta eftir er ljóst að breytingar verða á landshlutasamtökum sveitarfélaganna þar sem fækkun sveitarfélaga mun að mínu mati kalla á endurskoðun á starfssvæði landshlutasamtakanna. Þarna eru komin að mínu mati mikil tækifæri fyrir enn frekara samstarfi og samtali sveitarfélaganna í landinu og ýtir enn frekar á betri skilgreiningu á starfsemi landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en vona að tillagan nái fram að ganga því að ég tel að hún verði til framdráttar fyrir íbúa sveitarfélaga landsins.