150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stofnun embættis tæknistjóra ríkisins.

15. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég greiði að sjálfsögðu atkvæði með tillögunni. Orð hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vekja nokkrar spurningar hjá mér. Það er að sjálfsögðu frábært að gera vel og þegar fólk segir „gera áfram vel“ það sem þegar er verið að gera fæ ég efasemdir vegna þess að það er svo margt sem hefur farið úrskeiðis í tæknimálum hjá ríkinu í gegnum tíðina. Ég hef engan tíma til að rekja það á 30 sekúndum, en það skiptir máli að tekin sé stefna sem hefur í för með sér eitthvað meira en bara meiri hugbúnað eða að samþætta eitt eða einfalda annað. Það skiptir máli að hugbúnaður sé opinn og að eignarhaldið sé hjá þeim stofnunum sem borga fyrir hann. Það þarf raunverulega pólitíska stefnumótun í tæknimálum til að vel fari til lengdar þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til dáða. Að sama skapi hvet ég hæstv. ráðherra til að líta aðeins lengra út fyrir það sem hefur verið gert hingað til og gera sitt besta til (Forseti hringir.) að þessi mál verði til fyrirmyndar á heimsvísu. Okkur skortir ekkert til þess.