150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir svarið og verð að vera ósammála af því að það er allur gangur á því hvert starf aðstoðarmanns er. Það fer eftir persónum og leikendum hverju sinni. Á síðasta kjörtímabili t.d. sátu ráðherrar í embættum sínum í átta mánuði, eitthvað slíkt eða hvort það náði tíu, ég veit það ekki, og það sama gegndi með aðstoðarmennina. Aðstoðarmennirnir fylgja oft ráðherrum allan tímann, stundum ekki. Sumir fá miklar upplýsingar, aðrir ekki o.s.frv.

Önnur spurning sem ég velti fyrir mér er hvers vegna ekki er farin sama leið og í Noregi, sem þó er talað um í þessu frumvarpi, varðandi það að hafa sérstaka eftirlitsnefnd með þessu. Það er sérstaklega talað um að það sé flókið fyrir forsætisráðherra að ætla að hafa eftirlit með samráðherrum sínum þannig að það mun ekki vera. Þá veltir maður fyrir sér: Hvers vegna göngum við ekki alla leið og reynum að hafa þetta jafn faglegt og er í Noregi þar sem óháð nefnd er látin fylgjast með þessari skráningu í staðinn fyrir að gera þetta á vettvangi flokkspólitíkur?