150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé nú allt slæmt sem komi frá Evrópu. Ég held að hv. þingmaður sé mér alveg sammála um það. Ég held að í sjálfu sér, alveg óháð GRECO þó að þessar athugasemdir hafi komið fram í síðustu úttekt þeirra, sé þetta til bóta fyrir okkur öll. Og af hverju segi ég það? Ég held að við lendum bara öll í þeim tilfellum reglulega að þurfa virkilega að meta það hvenær er verið að hafa áhrif á okkur, hvaða hagsmunir ráði för. Og af því að hv. þingmaður nefnir sérstaklega hagsmunaverðina finnst mér mikilvægt að ítreka það sem kom fram, að þetta á ekki við um mál sem enda með stjórnvaldsákvörðun, sem nema þúsundum á ári hverju. Þetta snýst um samskipti hagsmunavarða við stjórnvöld til að mynda til hafa áhrif á stjórnarfrumvörp eða lagasetningu eða regluverk. Það er ekki svo að í öllum þeim þúsundum mála sem enda með stjórnvaldsákvörðun þurfi að skrá hagsmunaverði. Við teljum að þetta sé ekki íþyngjandi í sjálfu sér. Þrátt fyrir allt er þetta ekki sérlega stórt land. Þetta eru ekkert gríðarlega margir aðilar, ímynda ég mér. Ég held að þetta aukna gagnsæi sé ekki bara gott fyrir okkur, ég held að það sé líka gott fyrir hagsmunaverðina.