150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls og ég met stöðuna þannig að það sé heldur meiri jákvæðni en neikvæðni gagnvart þessu frumvarpi sem ég fagna. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að Alþingi sammælist um að setja skýran ramma um störf æðstu handhafa framkvæmdarvalds.

Í ljósi þess sem fram kom í ræðu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur þá er það réttur skilningur hjá henni á 6. gr. að aðstoðarmenn heyra undir það sem sagt er þar. Það er annars vegar gagnvart æðstu handhöfum framkvæmdarvalds og hins vegar aðstoðarmönnum. Þeir heyra undir þetta, það er réttur skilningur.

Hvað varðar ráðherrana fór ég yfir það í ræðu. Við erum ekki með fjölskipað stjórnvald á Íslandi og hver ráðherra er í raun og veru æðsti handhafi síns framkvæmdarvalds. Hins vegar vil ég vekja athygli þingmanna á því að m.a. vegna umræðu í hópi formanna stjórnmálaflokkanna á vettvangi stjórnarskrárvinnunnar hefur verið ákveðið að setja af stað endurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð og lögum um landsdóm. Ég vonast til þess að þau lög geti verið hér til umfjöllunar á næsta þingi þar sem gefst kannski tækifæri á að fjalla aðeins nánar um það hvað felst í þessu hugtaki, ráðherraábyrgð. Ég held að það sé mikilvægt. Þessi lög eru komin til ára sinna og við höfum átt töluverða umræðu um þau á vettvangi formanna flokkanna. Það er áhugavert líka að sjá niðurstöður rökræðukönnunar sem var haldin í nóvember þar sem eftir töluverða umfjöllun með sérfræðingum skiptu þeir sem þar voru staddir, valdir af handahófi, í raun og veru dálítið um skoðun á þessum málum, sem mér fannst mjög áhugavert. Þegar við lítum til landanna í kringum okkur eru þar mjög skýr ákvæði annars vegar um ráðherraábyrgð og hins vegar um einhvers konar viðurlög við því.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt sérstaklega. Ég ítreka að ég tel þetta mikið framfaraskref og ég tel að það sé ekki lokaskrefið í því. Þetta er eitt skref á langri leið í því hvernig við getum tryggt betur gagnsæi og traust í kringum handhafa framkvæmdarvaldsins.

Ég ítreka það sem ég nefndi áðan um það að ég tel að forsætisráðuneytið geti hæglega tekið að sér þetta hlutverk meðan ekki falla fleiri undir ákvæði laganna en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Verði lögin endurskoðuð innan einhverra ára í þeim tilgangi að víkka út gildissvið þeirra er náttúrlega ljóst að það mun verða töluvert meiri vinna að hafa eftirlit með þeim lögum og það mun kalla á einhverjar aðrar ráðstafanir.

Herra forseti. Ég vonast til þess að málið hljóti vandaða umfjöllun í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og vonast til að við ljúkum afgreiðslu þess á þessu þingi.