150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:04]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Tvær skýrslur hafa vakið nokkra athygli nýlega og kalla á frekari umræður og viðbrögð þegar horft er á þær í samhengi. Annars vegar er um að ræða skýrslu Kolbeins Stefánssonar frá síðasta hausti um aukna örorku kvenna yfir fimmtugu, stóraukna, og hins vegar nýlega skýrslu Eurostat þar sem kemur fram að um 9% fullorðinna Íslendinga sinna umönnun langveikra, fatlaðra eða aldraðra ástvina sinna. Hér er þá um að ræða það fólk í fjölskyldunum sem margt mæðir á, eins og við þekkjum, að vinna fyrir heimilunum, vera jafnvel í krefjandi vinnu þar sem reynir á viðkomandi líkamlega og andlega, og svo skyldur gagnvart börnum og barnabörnum. Sú umönnun sem hér um ræðir, að annast um langveika ástvini, fatlaða eða aldraðra, bætist þá ofan á slíkar skyldur.

Við tölum oft um þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við og vera talin í hópi með; Norðurlandaþjóðirnar, grannþjóðir okkar. En þegar kemur að þessum málum skera Íslendingar sig verulega úr. Í Evrópu almennt eru það um 4% fólks sem hafa á hendi slíka umönnun ástvina sinna en á Norðurlöndum í kringum 3%. Hér eru það 9%. Við megum ekki alhæfa um of og auðvitað eigum við mörg dæmi um karla sem slíkum umönnunarstörfum sinna, ýmist einir eða með konum. En ég held þó að óhætt sé að segja að í flestum tilvikum sé það svo að þessi störf lenda hjá konunum í fjölskyldunum. Eins og áður segir bætist það iðulega við krefjandi störf á vinnumarkaði og ekki fjarri lagi að álykta að það sé samhengi á milli þessa álags á konum innan fjölskyldnanna og svo þeirrar staðreyndar að fjölgun örorkulífeyrisþega hér á landi að undanförnu hefur verið að langmestu leyti í hópi kvenna á aldrinum 50–60 ár.

Við heyrum oft orð eins og kulnun og örmögnun. Við heyrum margar sögur af því hvernig viðkomandi einstaklingar fara yfir þolmörk sín, bogna undan álaginu, því að slík umönnunarstörf eru ekki aðeins líkamlega krefjandi heldur getur fylgt þeim mikil sorg. Fólk horfir upp á foreldra sína missa tökin, missa krafta, missa hæfni og hefur svo stöðugt og nagandi samviskubit yfir því að vera ekki að sinna sínum nægilega vel. 9% hér en 3% á Norðurlöndunum. Á það ekki að vera sameiginlegt verkefni samfélagsins að taka utan um aldraða og hjúkra sjúkum og styðja lasburða? Við menntum fólk til slíkra starfa en svo neita yfirvöld að búa umönnunarstéttunum sómasamleg starfsskilyrði og neita að semja um laun við þær. Getur verið að hér sé um að ræða birtingarmynd áratuga vanrækslu íslensks samfélags við að byggja upp umönnunarkerfi? Er þetta birtingarmynd þess að það vantar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða um allt land? Það vantar hjúkrunarheimili, það vantar legupláss.

Maður spyr sig: Er þessi aukna örorka kvenna á aldrinum 50–60 ára e.t.v. fórnarkostnaðurinn af því að velta skyldum velferðarsamfélagsins yfir á fjölskyldurnar og inn á heimilin í landinu þar sem þær lenda þyngst á herðum kvenna?