150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000 - 2019, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[12:17]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum ástand sem er uppi núna varðandi loðnuveiðar við Ísland og þá skýrslu sem út er komin. Í þessari ræðu ætla ég fyrst og fremst að leggja áherslu á samfélagslega þáttinn fyrir þær byggðir, sérstaklega á landsbyggðinni, sem lenda verst í loðnuleysinu. Við erum að upplifa það að loðna finnst ekki annað árið í röð og íslensk uppsjávarfyrirtæki og heilu byggðarlögin hafa þurft að mæta verkefnaleysi sem fylgir því og draga saman seglin. Ríkissjóður er hugsanlega að verða af 4–5 milljörðum en útflutningsverðmæti loðnu 2018 nam tæpum 18 milljörðum kr. og hafði verið á þeim nótum um þriggja ára skeið, um 18 milljarðar á ári. Mest var veiðin og verðmætin 2013, 34 milljarðar.

Loðnan er að jafnaði næstverðmætasta útflutningstegund íslensks sjávarútvegs. Á eftir loðnu í aflaverðmæti er karfi með 13,5 milljarða kr. verðmæti. Þorskurinn er náttúrlega í efsta sæti og hefur verið það um langt árabil. Loðnubresturinn hefur því mikil áhrif á samfélögin þar sem útgerðirnar rækja starfsemi sína, bæði á starfsmenn og bæjarsjóðina. Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa ein og sér metið tekjumissi sinn vegna loðnubrestsins árið 2019 á 260 milljónir. Það er upphæðin sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Loðnubresturinn hefur jafnframt verulegar afleiðingar á afkomu hafnarsjóðs viðkomandi sveitarfélaga. Enda þótt rekstur Fjarðabyggðarhafna þoli slíkan skell mun lækkandi framkvæmdastig á vegum hafnanna hafa keðjuverkandi áhrif út í atvinnulífið. Sá samdráttur bætist við lægri atvinnutekjur hjá stórum hópi fólks, langt út fyrir raðir útgerðarfélaganna í Fjarðabyggð. Áhrifanna gætir þó mest í Vestmannaeyjum af einstökum byggðakjörnum en þar hefur síðustu árin verið stærsta löndunarhöfn loðnu og var milli áranna 2016 og 2018 29% aflans landað í Eyjum. Bæði Ísfélagið sem á stærstan hlut loðnukvótans, eða rétt undir 20% hámarkinu, sem og Vinnslustöðin sem er fjórði stærsti kvótaeigandinn, með tæplega 11%, eru staðsett í bænum en fjögur stærstu fyrirtækin eiga tæplega 60% alls loðnuflotans.

Fréttir hafa borist af því að fyrstu loðnutorfur vetrarins séu fundnar á Íslandsmiðum. Leitarleiðangur þriggja skipa undir forystu hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar sá torfur norður af Hornströndum og Húnaflóa. Ekki er um gríðarlegt magn að ræða en þó er um að ræða fyrstu eiginlegu loðnutorfurnar sem hafa fundist um langan tíma. Á meðan staðan er þetta alvarleg og enginn vertíð fyrirsjáanleg munu sjávarútvegssveitarfélögin, Fjarðabyggð, Langanesbyggð, sveitarfélagið Hornafjörður, Vestmannaeyjar, Vopnafjörður, eiga töluvert hart fram undan. Þessi sveitarfélög ásamt Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga halda kröfu á lofti um hlutdeild í tekjum af auðlindanýtingu í sjávarútvegi til þess að geta tekist á við þær sveiflur sem eru óumflýjanlegar í rekstri sem byggir á nýtingu auðlindarinnar og til að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf.

Á fyrri hluta síðasta árs endurskoðaði Alþingi og ríkisstjórnin fjármálaáætlun hins opinbera til að mæta þeim áföllum sem þá höfðu komið fram vegna gjaldþrots WOW air og loðnubrest. Vandamál tengd Boeing 737 Max vélum Icelandair voru ekki fyllilega komin í ljós á þeim tímapunkti eða hversu alvarleg þau yrðu.

Sömu forsendur eiga við um sveitarfélög landsins þar sem áhrifin koma mismikið fram. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga óskuðu um mitt síðasta ár eftir aðstoð RR ráðgjafar við að greina áhrif loðnubrests á sveitarfélögin fyrir stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga. Markmið greiningarinnar var að meta bein áhrif loðnubrests á fjárhag og rekstur sveitarfélaganna, fyrst og fremst að líta til tekjutaps vegna lægri launatekna íbúa og vegna minni umsvifa í hafnarstarfsemi. Ekki var lagt mat á aðra þætti. Í greiningu RR ráðgjafar kemur m.a. fram að loðnan hefur verið næstmikilvægasta útflutningsfisktegund á Íslandi á eftir þorski. Veiðar á loðnu eru bundnar við tiltekin veiðitímabil og byggja á aflareglu og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Sú regla gerir ráð fyrir að heimilt sé að veiða upp að því marki að skilin séu eftir um 400.000 tonn af kynþroska loðnu hverju sinni. Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar fyrir síðustu loðnuvertíð gáfu til kynna að þau viðmið myndu ekki nást ef veiðar yrðu heimilaðar. Hafrannsóknastofnun lagði því til að ekki yrðu leyfðar loðnuveiðar á vertíðinni 2018/2019. Loðna hefur verið veidd við Ísland samfleytt frá árinu 1963. Þótt komið hafi vertíðir með mjög litlum veiðum hefur það aldrei áður farið svo að ekki hafi orðið nein veiði. Það sýnir alvarleika málsins nú að annað árið í röð skuli stefna í sömu þróun og fyrir ári síðan. Útflutningsverðmæti loðnu nam um 17,8 milljörðum kr. á árinu 2018 en mest, eins og ég kom inn áðan, 34 milljörðum kr. á árinu 2013. Algjör aflabrestur í loðnu hefur þannig gríðarleg áhrif á sjávarútvegsfyrirtæki í landinu, starfsfólk þeirra fyrirtækja, sjávarútvegssveitarfélögin og ríkissjóð. Áætlað er að loðnubrestur á árinu 2019 lækki landsframleiðslu um 0,6%.

Loðnuvinnsla fer fyrst og fremst fram í fimm sveitarfélögum, Fjarðabyggð, Langanesbyggð, sveitarfélaginu Hornafirði, Vestmannaeyjabæ og Vopnafjarðarhreppi. Hlutfallslega er áfallið því enn meira þar en í öðrum sveitarfélögum. Bein áhrif loðnubrests á tekjur þeirra sveitarfélaga eru áætluð um rúmar 500 millj. kr. á árinu 2019 eða á bilinu 4,5–6,7% af skatttekjum og tekjum hafnarsjóða. Í sveitarfélögunum búa samtals tæplega 13.000 íbúar. Áætlað tekjutap er því um 40.000 kr. á hvern íbúa eða um 160.000 kr. fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Má geta þess að það fram kemur í töflu sem fylgir, og hægt er að benda á skýrslu RR ráðgjafar varðandi hvernig þetta kemur niður á einstökum sveitarfélögum. Þetta er áfall fyrir viðkomandi sveitarfélög eins og komið hefur fram.

Samband íslenskra sveitarfélaga tók saman upplýsingar á síðasta ári um tekjur sveitarfélaga vegna staðgreiðslu útsvars á fyrri hluta árs 2019 og bar saman við árið á undan. Staðgreiðsla hækkaði á öllu landinu um 6,1%. Staðgreiðslan hækkaði á bilinu rúmlega 4% í tæplega 7% í öllum landshlutum nema á Austurlandi þar sem hækkunin var um 2,3%. Það má því glöggt greina hversu stórt áfallið er á Austurlandi. Austurland er stærsta verstöð landsins í uppsjávarveiðum og vinnslu.

Eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra benti á í ræðu áðan hefur þessi ríkisstjórn lagt sérstaka áherslu á eflingu hafrannsókna. Sú áhersla birtist m.a. í auknum fjármunum til loðnurannsókna frá árinu 2018, eins og ráðherrann fór ágætlega yfir. Hins vegar er það þannig með þennan nytjastofn eins og aðra að þrátt fyrir að við eigum mjög færa og öfluga vísindamenn er auðveldara að telja fé í haga en fiska í sjó. Vitneskja okkar um lífríki sjávar er þrátt fyrir allar tækniframfarir mjög takmörkuð.

Nokkur orð um framtíðarhorfur fyrir loðnustofninn á Íslandsmiðum. Í skýrslunni er fjallað um þær framtíðarhorfur. Þar er vísað til þess að horfur fyrir komandi vertíð séu ekki góðar miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi. Þannig er vísað til þess að mæling á magni eins árs loðnu haustið 2018 gefi ekki miklar vonir. Sú vísitala mældist 10,8 milljarðar og er með þeim lægstu sem sést hafa undanfarin ár. Í skýrslunni er vísað til þess að ekki hafi verið óalgengt á tíunda áratug síðustu aldar að mælingin væri um eða yfir 100 milljörðum eða tífalt stærri. Þá segir að það sé fullvíst að loðnustofninn muni áfram vera í lægð. Samkvæmt þessu má velta því upp hvort við þurfum ekki að hreinlega að undirbúa okkur fyrir þann möguleika að hér verði viðvarandi loðnubrestur á allra næstu árum.

Það vakna spurningar þegar farið er í gegnum efni skýrslunnar: Hvaða áhrif hefur þetta á þau samfélög sem eiga mest undir? Er hægt að gera eitthvað í staðinn? Þarf og er mögulegt að grípa til einhverra mótvægisaðgerða vegna þessarar þróunar? Ég átta mig á því að það kann að vera fullsnemmt að taka þessa umræðu en ég held að ef loðnubrestur raungerist annað árið í röð þurfum við að velta upp þeim spurningum, enda eru þetta spurningar sem við þurfum að leita svara við og undirbúa okkur fyrir.

Í skýrslunni er að finna áhugaverða umfjöllun um hugsanleg áhrif hlýnunar sjávar á vöxt, göngur og útbreiðslu loðnu við Ísland. Þar kemur m.a. fram að ástæða sé til þess að ætla að breytt hitafar og þar af leiðandi breytt staða skili kaldari sjó úr norðri og að leifar hlýsjávar úr suðri á svæðinu norðan og austan landsins hafi haft áhrif á göngu loðnu á þeim slóðum. Þessu er ágætlega lýst í skýrslunni en ég velti fyrir mér hvort tilefni sé til þess að skoða þær breytingar nánar. Það á ekki einungis við loðnustofninn heldur fleiri stofna. Þannig mætti m.a. skoða hvort hækkandi hitastig sjávar gefi tækifæri til að veiða stofna sem hingað til hafa ekki verið veiddir.

Umræðuefnið hér í dag er stórt og gríðarlega mikilvægt enda er, eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna, loðnan raunverulega undirstaða fæðukeðjunnar á Íslandi. Ég vildi hins vegar fyrst og fremst vekja athygli á þeim samfélögum í landinu sem eiga mest undir í þessari mikilvægu umræðu.