150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[15:59]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að taka upp þessa umræðu hér í þinginu. Fyrir tæpum fjórum árum sat ég á Akureyri kynningu dr. Janusar Guðlaugssonar, sem hefur verið margnefndur í þessari umræðu, sem er íþrótta- og heilsufræðingur. Þar kynnti hann þá hugmyndafræði sem hann vinnur með í tengslum við heilsueflingu eldri borgara. Ég hef oft síðan leitt hugann að því þegar kemur að þeim málum sem við ræðum hér í dag. Þessar hugmyndir snúa að því að koma á skipulagðri heilsurækt og styrktaræfingum fyrir eldri borgara til að koma í veg fyrir hægfara vöðvarýrnun, búa svo um hnútana að eldra fólk geti áfram sinnt sínum daglegu störfum, eigi möguleika á að sinna störfum á vinnumarkaði ef áhugi er til staðar og seinka eins og mögulega er innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili. Hér er um fyrirbyggjandi heilsueflingu að ræða.

Á síðustu árum hefur eldri borgurum fjölgað mikið en hugmyndir dr. Janusar snúa að fólki sem er 65 ára og eldra. Allt bendir til þess að fjölga muni hratt í þessum aldurshópi á komandi árum eins og kom fram í máli hv. þingmanns hér á undan.

Mikið hefur verið fjallað um stöðu hjúkrunarrýma í landinu, uppbyggingu þeirra og rekstur á vettvangi fjárlaganefndar. Í fjárlögum fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir að yfir 50 milljarðar fari í mál sem snúa að hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu. Rekstrarkostnaður á hvert hjúkrunarrými er að meðaltali rétt um 14 millj. kr. Til samanburðar er kostnaður við heimaþjónustu um 1,5–2 millj. kr. Það er því til mikils að vinna. Það er auðvitað mest um vert að bæta lífsgæði fólks, eldri borgara. Hin hliðin er svo fjárhagslegur sparnaður, betri nýting á peningum skattgreiðenda. Í dag dvelja um 20% þeirra einstaklinga sem náð hafa 80 ára aldri á hjúkrunarheimilum. Þessi hópur mun tvöfaldast ef fram fer sem horfir á næstu 15–20 árum. Við þurfum að bregðast við þessari þróun með öðrum hætti en við höfum verið að gera. Stjórnvöld hafa áður (Forseti hringir.) ráðist í fyrirbyggjandi aðgerðir til að ná utan um vaxandi vanda og náð góðum árangri. Þetta ætti ekki að vera neitt öðruvísi.