150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Margir hópar eru oft útilokaðir í umræðunni í samfélaginu og eldri borgarar eru meðal þeirra hópa sem oft er ekki byrjað að tala um fyrr en vandamál þeirra eru orðin vandamál einhverra annarra hópa líka. Hér hefur verið nefnt að forvarnir skili sér fjórtánfalt. Það eru ekki bara gleðifregnir vegna þess að það þýði að við höfum lausnir sem geta haft mikinn árangur í för með sér heldur þýðir það líka að við getum undirbúið okkur fyrir framtíðina óháð því hvernig staðan er í dag.

Það er óumdeilt, eins og kemur fram í ræðum hv. þingmanna hér, að þjóðin er að eldast og að hlutfall þeirra sem eru eldri hækkar vegna þess að dregur úr fæðingartíðni meðfram almennri velmegun. Menntun og velmegun hefur tilhneigingu til að draga úr fæðingartíðni hér eins og alls staðar annars staðar.

Það er komið á hreint að það er aldrei of seint að byrja. Það hjálpar alltaf að hefja líkamsrækt, maður verður aldrei of gamall til að hefja líkamsrækt. Maður nær aldrei þeim aldri að líkamsrækt byrji að skaða eða hafi engin áhrif. Hún hefur alltaf jákvæð áhrif. Á þetta hefur verið bent ítrekað og mér skilst að það sé tiltölulega nýlega staðfest. Það eru hlutir sem við getum gert núna strax fyrir kynslóðir sem eru ekki komnar á efri ár, fólk sem er núna tvítugt, þrítugt eða fertugt, í forvörnum sem getur skilað sér vel seinna.

Það er annað sem er hugsanlega tabú að nefna í þessu samhengi, en það er að við þurfum líka að fylgjast vel með lífeyrissjóðakerfinu og almannatryggingakerfinu og þróun þess eftir því sem þjóðin eldist. Slík kerfi breytast mikið á áratuga tímabili og við getum alveg lent í því að seinna meir takist þessum kerfum ekki að búa sig eins vel undir þennan hóp og við gerum ráð fyrir núna. Meðfram öllu sem við gerum í forvörnum og þess háttar (Forseti hringir.) þurfum við líka að fylgjast með stöðu mála hverju sinni og vera viðbúin því að eitthvað fari ekki eftir áætlun.