150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Aldurspíramídinn er ekki lengur píramídi. Hann er trapísa í besta falli og er á leiðinni að verða kassi. Þetta mun ekki þýða að það fjölgi línulega í hópi þeirra sem þurfi á aukinni þjónustu að halda vegna þess að heilsa þeirra sem eru í efri lögunum er stöðugt að batna. Við skulum því ekki mála myndina dekkri litum en þarf. En við þurfum hins vegar að líta á þetta sem risastórt lýðheilsuverkefni. Ég hef verið svo lánsamur að vinna að endurhæfingu og líkamsrækt eldra fólks síðastliðin 20 ár og það yljar mér sannarlega um hjartaræturnar að nánast allir þingmenn sem hér hafa tekið til máls hafa nefnt samstarfsmann minn og fyrrum nemanda í því samhengi.

Það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig og það er ekki lengur bara frasi heldur vísindaleg staðreynd sem hefur verið ljós allt frá u.þ.b. fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Það er vitað að með tiltölulega litlu inngripi, 20–30 mínútum af reglulegri hreyfingu tvisvar til þrisvar í viku fyrir einstakling sem er 70 ára og eldri, getur sá einstaklingur vænst þess að jafnaði að bæta tveimur til þremur árum við þann tíma sem hann á eftir ólifað. Af sjálfu leiðir að líklega verður þetta allt gæðatími. En það verður hins vegar, eins og ég sagði áðan, að líta á það að auka forvarnir og heilsueflandi lífsstíl sem lýðheilsuverkefni. Það verður að líta þannig á þetta að við ætlum að fá sem flesta til að fara út og hreyfa sig vegna þess að við munum aldrei eiga nægilega mikið af heilbrigðisstarfsfólki eða íþróttakennurum eða íþróttafræðingum til að sinna þessu verkefni. Við sem samfélag verðum að koma þeim skilaboðum ekki bara til eldra fólks heldur til allra að hreyfing sé eðlilegur hluti af lífsstíl í nútímasamfélagi