150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. málshefjanda fyrir hans frumkvæði með því að taka þetta mikilvæga efni fyrir, forvarnir og heilsueflingu eldra fólks, og sömuleiðis vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar þátttöku og framlag í þessum umræðum. Það er mikilvægt að leggja áherslu á það sem fólk getur gert sjálft og það hefur verið vitnað til stórmerkilegs framtaks dr. Janusar Guðlaugssonar, sem er heilsuefling sem felur í sér m.a. styrktarþjálfun til að koma í veg fyrir hægfara vöðvarýrnun samfara heilbrigðum lífsstíl, mataræði og öðru slíku. Þetta er auðvitað afar mikilvægt en stefna stjórnvalda verður að vera fallin til þess að bæta hag og lífskjör eldra fólks. Það er auðvitað alveg hárrétt sem hér hefur verið bent á að þetta er þjóðfélagshópur sem fer ört stækkandi. Ég vil leyfa mér að nota tækifærið til að ítreka nauðsyn þess að eldra fólk, sem hefur vilja og getu til að starfa á vinnumarkaði, sé ekki latt til þess eða gert það erfitt með því að skerða lífeyri eins og nú tíðkast. Það er viðurkennt í lýðheilsufræðum hvað það er mikilvægt fólki að vera virkt í samfélaginu, virkt á vinnumarkaði, í virku sambandi við annað fólk. Þess vegna er þetta atriði mjög mikilvægt og ég ítreka eina ferðina enn nauðsyn þess að látið verði af skerðingum bóta almannatrygginga þegar kemur að atvinnutekjum eldra fólks.