150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún er mjög nauðsynleg en við verðum líka að átta okkur á því að við erum að tala um eldri borgara. Það er stór hópur í misgóðri aðstöðu. Sumir heldri borgarar, getur maður sagt, hafa það fínt, eru í góðri stöðu eftir að vinnu lýkur, komast í golf og geta farið til útlanda, borðað góða og heilnæma fæðu og eru í góðum málum. Síðan er stór hópur sem er alveg á hinum endanum, einstaklingar sem eiga ekki fyrir mat, ganga að ísskápnum og hann er tómur þegar þeir opna hann. Það segir sig sjálft að einstaklingur sem lifir á hrísgrjónagraut eða hafragraut fer ekkert í líkamsrækt.

Síðan er stór hópur sem er líka á biðlistum eftir aðgerðum, ekki bara svo mánuðum skiptir heldur árum. Sumir í þessum hópi geta komið sér fram fyrir og keypt sér aðgang að þeim aðgerðum sem þeir þurfa að fara í en aðrir sitja fastir á biðlistunum. Loksins þegar sú bið endar og þeir fá sína aðgerð er heilsan orðin það léleg að þeir eiga erfitt með að ná sér upp í eðlilegt horf. Þetta er sá hópur sem gleymist yfirleitt alltaf.

Ég segi fyrir mitt leyti að meðan við erum með hópa sem geta ekki framfleytt sér á mannsæmandi hátt og fá ekki þá þjónustu sem er sjálfsögð og eðlileg þegar fólk hefur þjónað sínum vinnustað alla sína tíð, er búið að borga í lögþvingaðan eignaupptökuvarinn lífeyrissjóð og það skilar því engu nema fátækt og eymd getum við ekki talað um að þessi hópur eigi að stunda líkamsrækt og efla heilsuna. Þetta er hópurinn sem því miður (Forseti hringir.) deyr oft löngu fyrir aldur fram, hefur skemmstan líftíma af eldri borgurum og hefur það verst. Þetta er sá hópur sem við eigum að einbeita okkur að. Þá erum við komin a.m.k. á réttan stað.