150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Rétt eins og málshefjandi þakka ég fyrir afar góða umræðu og vil nefna nokkur atriði í lokin. Í heilbrigðisstefnunni er heilsugæslunni ætlað mjög stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustu við landsmenn, m.a. það að hún taki virkan þátt í heilsueflingu og sinni ráðgjöf á því sviði. Í lok síðasta árs ákvað ég að ráðstafað yrði 200 millj. kr. af fjárlögum þess árs til að koma á fót heilsueflandi móttökum um allt land innan heilsugæslunnar. Þær móttökur eru fyrst og fremst ætlaðar eldra fólki og einstaklingum með fjölþætt eða langvinn heilsufarsvandamál. Þetta er viðleitni til þess að þjónustan verði markviss, að þessi hópur fái þverfaglega og heildstæða heilbrigðisþjónustu og að þarna verði skipulögð heilsuvernd fyrir aldraða. Ég skipaði fyrir einhverjum mánuðum starfshóp um heilsueflingu aldraðra sem ætlað er að koma með tillögur um fyrirkomulag samstarfsverkefna í heilsueflingu sem gera öldruðum kleift að búa í heimahúsum eins lengi og kostur er. Þar verði sérstaklega horft til samstarfs ríkis og sveitarfélaga og verkaskiptingar í málaflokkum sem lúta að heilsueflingu aldraðra. Þar er þannig eitt sérstaklega tiltekið verkefni.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson segir um þennan einfalda hlut sem er að takmarka kyrrsetu og hreyfa sig í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu. Við erum að tala um þá meginráðleggingu sem er svo einföld að eldra fólk stundi miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur á dag. Þessu má skipta í tvö, þrjú skipti yfir daginn. Við erum ekki endilega að tala um skipulega líkamsrækt heldur bara það að standa upp og hreyfa sig samtals í 30 mínútur á dag. Við vitum að það er mikill ávinningur af slíkri líkamsþjálfun.

Það er annað sem snertir eldra fólk, leiðbeiningar um forvarnir fyrir heilabilun, leiðbeiningar um slysavarnir á heimilum, líka byltuvarnir og ýmislegt því um líkt, (Forseti hringir.) ráð sem varða snjóbræðslu í stéttum, stigahandrið til að styðja sig við og ýmislegt annað. (Forseti hringir.) Leiðbeiningarnar eru víða á okkar vefjum og ekki síst hjá embætti landlæknis sem nýlega gaf út til að mynda þrennar leiðbeiningar sem lutu bara að næringu aldraðra í samstarfi við Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum og varða líka forvarnir.

Ég þakka forseta enn og aftur fyrir þolinmæðina og hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli.