150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Í þessari viku á sér stað mikilvæg umræða innan Háskóla Íslands um endurnýjun á þjónustusamningi við Útlendingastofnun sem snýr að tanngreiningum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Stúdentaráð hefur skorað á háskólaráð að fella þjónustusamninginn úr gildi og standa þannig vörð um mannréttindi flóttafólks. Af þessu tilefni er rétt að minna á að frumvarp um aldursgreiningu með heildstæðu mati er nú til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Í grófum dráttum er samhljómur í umsögnum um málið skýrt ákall um úrbætur. Ég gríp hér niður í eina umsögnina sem fangar meginatriði málsins, með leyfi forseta:

„Barnaverndarstofa styður heils hugar að lögum um útlendinga sé breytt til samræmis við tilmæli frá Evrópuráðinu þannig að þegar vafi leikur á því hvort umsækjendur sem sækja um alþjóðlega vernd séu börn skuli þeir ávallt metnir sem börn en ekki sem fullorðnir, og að beitt skuli heildstæðu mati til að reyna að komast að aldri þeirra en ekki tanngreiningum sem er aðferð sem eðli málsins samkvæmt hefur töluverð skekkjumörk.“

Herra forseti. Ákvörðun háskólaráðs varðandi tanngreiningar er ekki auðveld. Innan háskólans eru mörg sem telja að úr því að þessi aðferð sé á annað borð notuð af Útlendingastofnun sé það skásta í stöðunni að hún sé þó framkvæmd af háskólanum. Þeirri afstöðu mótmæla stúdentar ásamt fjöldanum öllum af starfsfólki háskólans með góðum rökum. Þingheimur getur hins vegar leyst háskólann úr þessari klemmu með því að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp. Þannig mætti bæta móttöku flóttafólks og hælisleitenda til muna með tilliti til sjónarmiða mannúðar og mannlegrar reisnar.