150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[18:53]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Með sömu rökum er hægt að banna myndatökur alls staðar nema sérstakt leyfi sé veitt fyrir því. Ég hef ekki veitt sérstakt leyfi fyrir því að ég sé hér í beinni útsendingu eða því að stundum standa ljósmyndarar hér upp og taka myndir af mér. Með rökum hv. þingmanns er hægt að líta á einkarýmið — og við erum farin að nálgast mjög heimspekilegar spurningar. Þetta er í sjálfu sér mjög áhugaverð umræða, hvar einkarýmið endar og almannarýmið hefst. Það er hins vegar ekki hægt að láta eins og við séum í einhverju tómarúmi. Ég fór ágætlega, að mínu viti, yfir vandkvæðin við það að mega ekki taka myndir af fólki ganga inn og út úr húsi við fjölfarnasta staðinn í miðborg Reykjavíkur. Við lifum nefnilega ekki í tómarúmi. Öllum þeim áhyggjum hv. þingmanns sem ég held að að mörgu leyti séu réttmætar, eins og ég kom inn á í máli mínu, að ég skilji hugsunina að einhverju leyti sem að baki liggi, má ná með því að dómari geti einfaldlega kveðið á um þetta. Það er einfaldlega hægt að fara fram á þetta. Hættan sem getur myndast þegar fortakslaust er bannað, nema það sé leyft, er að það festist í sessi að það verði bannað.

Fréttir eru skrifaðar af ýmsum hvötum, forseti. Ég er viss um að verið er að skrifa fjölda frétta núna sem eiga að ná einungis þeim árangri að sem flestir lesi og hægt sé að selja fleiri auglýsingar. Stór hluti frétta er hins vegar skrifaður út frá því fréttamati að þetta komi samfélaginu við. Og rétturinn til þess er býsna heilagur.