150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[19:17]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég og hv. fyrsti flutningsmaður þessa máls erum ósammála um grundvallaratriði í málinu. Það þýðir ekki að ég skilji hann ekki. Ég held að ég hafi í tvígang sagt hér í pontu að ég skilji hvatann að baki þessu. Maður getur verið ósammála þó að maður skilji hvata eða tilgang með einhverju. Þetta hefur verið áhugaverð umræða um margt, undir þá einkunn mína felli ég þó ekki útúrsnúning og ýmislegt fleira sem hér hefur fram komið, sérstaklega ekki þegar kemur að því þegar ég hef beint sjónum að okkur þingmönnum. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir muninum á því að standa hér sem kjörinn alþingismaður eða vera í dómsal. Hins vegar hafa þingmenn, margir hverjir, haft miklar skoðanir á því hvernig fjallað er um þá sjálfa í sínu einkalífi, á börum bæjarins, sumarfríum, hvar sem er. Þar eru líkindi, forseti.

Í þessari umræðu hafa fallið einstaka setningar sem draga fram mjög djúpstæðan skoðanamun. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sagði áðan, og ég skrifaði eftir honum, að einkalíf fólks eigi ekki erindi á forsíðu blaða ef það kýs það ekki. Þetta getur við fyrstu sýn reynst afskaplega sjálfsagt, eða hvað? Ég er ekki viss um að neinn af útrásarvíkingunum hafi kosið að vera á forsíðum blaða, svo ég taki dæmi. Ef ég ræni bíl og keyri fullur á ljósastaur er ég ekki viss um að ég kjósi það sérstaklega að vera á forsíðum blaða. En val mitt er kannski ekki aðalatriðið. Eigum við að taka vægara dæmi, eigum við að taka mynd á Laugardalsvelli á landsleik? Þúsund manns í stúkunni, af þeim eru 40 greinanlegir og komin er á forsíður blaða mynd af fólki, öskrandi, jafnvel einhver að bora í nefið, á forsíðu dagblaðs? Við höfum, forseti, mýmörg mál þar sem tekist hefur verið á um akkúrat þetta. Það er athyglisvert að heyra að hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni finnist þetta í raun og það er þessi andi sem ég gat mér til um að væri í þessu máli sem mér finnst vera staðfestur hér í umræðunni.

Hv. þingmaður og fyrsti flutningsmaður talar um að þetta snúist um réttindi þeirra sem eiga erindi í dómsal en hefur í engu svarað því til af hverju ekki sé hægt að tryggja þau með því að dómari megi einfaldlega banna þegar þess er talin þörf. Engu orði hefur hv. þingmaður vikið að því. Ég ætla að segja það að mér finnst að verið sé að draga upp þá mynd í máli hv. þingmanns að það að fara í dómsal í einhverjum erindum sé þvílík skömm að það megi bara aldrei gerast. Fullt af vitnum bjóða sig fram sjálfviljug. Sumir eru kallaðir til. (Gripið fram í.) Það á að vera eðlilegasti hlutur í heimi að aðstoða við framgang mála innan réttarkerfisins. Hins vegar geta komið upp þær aðstæður að af einhverjum ástæðum, persónulegum, tilfinningalegum, einhverjum, kjósi vitni að vera ekki fyrir opnum dyrum, vera ekki fyrir linsum myndavéla eða hvað sem er. Þá ætti að vera hægt að fara fram á það. Í því liggur grundvallarmunurinn sem mig langar að segja að ég sé búinn að „títaka“ hér, en aldrei hefur hv. fyrsti flutningsmaður komið inn á það, þann grundvallarmun á því að eitthvað sé bannað eða lokað, að það sé heimilt að opna það eða að eitthvað sé heimilt en það megi banna það.