150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Norræna ráðherranefndin 2019.

538. mál
[12:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og yfirlitið yfir starf Norrænu ráðherranefndarinnar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann og Norræna ráðherranefndin í heild sinni hafi orðið vör við aukinn áhuga stórvelda, eins og Rússlands, Kína og Bandaríkjanna, á Norðurlöndum og kannski ekki síst á norðurslóðum og hvort hæstv. ráðherra finni fyrir einhverri spennu sem gæti vaxið þar þegar auðlindir koma í ljós og verða aðgengilegar undan t.d. ís á Grænlandi. Maður sér áhuga þessara stóru ríkja á siglingaleiðum og nýtingu auðlinda. Er þetta eitthvað sem við þurfum að hafa gætur á?

Í öðru lagi bið ég hæstv. ráðherra að svara, ef hann hefur tíma, því hvernig honum finnist hafa tekist til með formennskuáætlunina hjá Íslandi yfir höfuð á síðasta ári.