150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

fordæming meðferðar bandarískra stjórnvalda á flóttabörnum.

109. mál
[16:20]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og er algjörlega sammála að við eigum að líta okkur nær. Það er hrein tilviljun sem veldur því að þessi þingsályktunartillaga er flutt í dag en ég held að sjaldan hafi verið betra tilefni en einmitt núna til að fjalla um þetta og þennan málaflokk eins og hann leggur sig, ekki síst hjá okkur. Í Evrópu er staðan alls ekki góð. 30.000 börn leituðu skjóls í Evrópu árið 2018, þar af 70% þeirra í þremur ríkjum, Þýskalandi, Frakklandi og Grikklandi. Við vitum öll hvernig staðan er í flóttamannabúðum í Grikklandi og af því að hv. þingmaður nefndi hvernig staðan er í Danmörku, að þar er búið að synja fólki um vernd en samt ómögulegt að senda það áfram, má nefna að það er líka staðan á Íslandi. Þeir einstaklingar sem höfðu áður fengið stöðu í Grikklandi og fengið vernd og stöðu flóttamanna í Grikklandi, eða þeir einstaklingar sem voru þar í flóttamannabúðum og bíða þar, eru ekki sendir í dag frá Íslandi. Þá líta stjórnvöld svo á að það séu einhver lok á þeirra meðferð, að þau séu ekki lengur í óvissunni, að það sé betra fyrir viðkomandi að fá neikvæða niðurstöðu, fá ekki efnismeðferð en er svo bara haldið hér vikum, mánuðum og misserum saman. Það er algjörlega fráleitt að bjóða börnum upp á þetta þannig að um leið og það er ljóst að vísa á viðkomandi til Grikklands aftur hljóta íslensk stjórnvöld að bera ábyrgð á því að senda aldrei börn í þær aðstæður sem þar eru. Ég held að okkur sé það öllum ljóst að það yrði klárt mannréttindabrot og þá þarf að taka (Forseti hringir.) ákvörðun um mál þeirra.