150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Nú er nýliðin kjördæmavika þar sem þingmenn fóru vítt og breitt um landið, héldu fundi og tóku hús á heimamönnum. Staða landbúnaðar og starfsumhverfi landbúnaðar og framtíðarhorfur dreifbýlis er mörgum ofarlega í huga. Það ætti flestum að vera ljóst að ef ekki á að fara illa þarf að fara í gagngera endurskoðun á því regluverki sem landbúnaði er gert að starfa eftir. Starfsumhverfi afurðastöðva í kjötiðnaði þarf t.d. að endurskoða með því að koma á svipuðu starfsumhverfi og mjólkuriðnaðurinn hefur heimild til. Heimavinnsla afurða getur orðið mikilvæg stoð í því að efla nýsköpun og þróun afurða en þar þarf einnig að endurskoða regluverk sem því miður er kostnaðarsamt og þungt í vöfum. Að lóga búfé heima fyrir er leyfilegt en einungis til heimanota en ekki til sölu. Alls staðar í Evrópu er heimilt að stunda heimavinnslu frá A til Ö, slátrun, vinnslu og sölu. Því getum við ekki gert það sama? Við vinnum jú eftir svipuðu ef ekki sama regluverki og nágrannar okkar í Evrópu.

Til að varpa ljósi á hversu öfugsnúið þetta er ætla ég mér að taka lítið dæmi sem snýr að veiðum á villtum spendýrum hér á landi, þ.e. hreindýrum. Eðli málsins samkvæmt er þeim lógað fjarri kjötvinnslum úti í guðsgrænni náttúrunni. Dýrið er síðan flutt að kjötvinnslunni þar sem lokafrágangur á sér stað, allt eftir settum reglum að sjálfsögðu. En þegar kemur að því að lóga sauðkind og vinna vöru til neytenda vandast málið. Svarið er: Nei, það má ekki. Fyrrverandi forstjóri Matís lét á þetta reyna haustið 2018 og var kærður fyrir vegna þess að okkar regluverk heimilaði þetta ekki. Í kjölfarið var unnin skýrsla sem af einhverjum ástæðum hefur ekki verið gerð opinber, að ég best veit.

Virðulegi forseti. Aðlögum okkar regluverk að nútímanum, auðveldum bændum að bæta sína afkomu því að ekki veitir af.