150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[15:01]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Okkur í Viðreisn er umhugað um að hlúð sé að íslenskri tungu og hún gerð gjaldgeng í stafrænu samskiptaumhverfi. Við styðjum við verkefni sem hafa það að markmiði. Má hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hafa verið snögg að bregðast við vilja þingsins sem samþykkti vorið 2018 að fela hæstv. ráðherra að skipa þennan starfshóp sem gera skyldi kostnaðar- og tímaáætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls og það verði gert aðgengilegt til lestrar á nettengdum búnaði og jafnframt að kannaðir yrðu möguleikar þess að ná samningum við höfundaréttarhafa um slík afnot stafrænnar endurgerðar ritverka.

Hæstv. ráðherra skipaði starfshópinn í september 2018 og honum var falið það verkefni að gera tillögur og skýrslu sem við ræðum hér. Þessi skýrsla er góð. Hún varpar ljósi á það hvernig við getum gert íslensk ritverk síðustu 170 ára aðgengileg stafrænt og rafrænt og þá á sama tíma aðgengileg komandi kynslóðum og hvernig við getum komið í veg fyrir að ritverk glatist, sérstaklega gamlar bækur sem eru eingöngu fá eintök eftir af og þar þarf ekki mikið út af að bregða til að þau glatist fyrir fullt og allt.

Líkt og fram kemur í skýrslunni er um stórt verk að ræða og í mörg horn að líta. Ég treysti því að ráðherra meti afmörkun útgáfutíma þess efnis sem til stendur að stafvæða með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi en ekki síður með tilliti til hagkvæmnissjónarmiða. Það er einfaldlega oft leiðin til að verkefni séu kláruð, að það sé haft í huga frá upphafi. Með því að miða við útgefið efni frá árinu 1850 fram til aldamóta er til að mynda unnt að ljúka stafvæðingu á sex árum með tveimur vélum en ekki þremur og spara þannig þriðjung stofnkostnaður og launakostnaðar auk hluta höfundaréttargjalda, spara það fram til næsta áfanga verkefnisins sem þá er hægt að skipuleggja í náinni framtíð. Þannig væri líka hægt að tryggja að sett séu í forgang elstu ritverkin sem mest hætta er á að glatist í náinni framtíð og fæst eintök eru almennt til af. Það er að sjálfsögðu mat ráðherra hvernig forgangsraðað verði með tilliti til hagsmuna og fjárveitinga en við erum sammála um að verkefnið er metnaðarfullt og mikilvægt, bæði okkur og komandi kynslóðum.

Í skýrslunni er bent á að í starfshópinn hafi ekki verið skipaðir fulltrúar hagsmunaaðila á borð við rétthafa og rannsakenda. Þar vantaði líka kannski helst fulltrúa fólks með prentleturshamlanir, en þar undir falla m.a. blindir og sjónskertir. Að mínu mati er ekki rétt að þessu verkefni verði haldið áfram án aðkomu fulltrúa þessara hópa. Bent er á í skýrslunni að greining á kostnaði til að tryggja aðgengi prentleturshamlaðra einstaklinga og hagsmunir rannsakenda og rétthafa kunni að hækka mat á heildarkostnaði við framkvæmd verkefnisins. Ég held að það sé sennilega vægt til orða tekið, líklega óhjákvæmilegt að greining á þeim kostnaði komi til hækkunar á heildarkostnaði. Við vitum náttúrlega ekki núna hversu mikið, við vitum heldur ekki hversu mikið fjármagn verður veitt í verkefnið í fjárlögum ríkisstjórnarinnar ef til þess kemur að fjármagninu verði forgangsraðað. Þá vitum við að handhafar höfundaréttar fá sitt í samræmi við lög og í samræmi við þá samninga sem vonandi munu nást í sambandi við þetta verkefni. En það þarf líka að setja aðgengið í forgang. Alþingi hefur þegar samþykkt þingsályktunartillögu um að ríkið skuli lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og skal lögfestingunni samkvæmt henni lokið á þessu ári og undir þennan samning fellur að bjóða upplýsingar og menningartengt efni á aðgengilegu og nothæfu formi. Ef forgangsraða þarf fjármagni þá treystum við því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra geri engar málamiðlanir þegar kemur að því aðgengi, jafnvel þó að það þýði að bækur síðustu 10, 15 eða 20 ára bíði næsta áfanga.

Kannski að lokum varðandi starfsstöðvarnar. Í niðurstöðum starfshópsins kemur fram að mesta hagkvæmni við vinnuna náist með því að kaupa þrjár myndavélar til myndunar bóka og að verkefnið verði unnið í þremur vinnslustöðvum samtímis á tveimur stöðum, þ.e. hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, tvær vinnustöðvar, og síðan Amtsbókasafninu á Akureyri, ein vinnustöð. Það er kannski gott í þessu samhengi að rifja upp að þegar tímarit.is, sem hér hefur verið nefnt oftar en einu sinni í umræðunni, var sett á laggirnar á sínum tíma þar sem öll tímarit og blöð voru sett á rafrænt form var Amtsbókasafninu á Akureyri falið það verkefni. Þetta verkefni sem við erum að ræða hér, stafræn endurgerð á íslensku prentmáli, er klárlega eitt af þeim verkefnum sem er einfalt að skipuleggja með byggðasjónarmið í huga. Það væri ánægjulegt að sjá slíkar áherslur í endanlegri útgáfu eða framkvæmd.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, herra forseti, en ég þakka fyrir umræðuna og ánægjulegt að taka þátt í henni. Þetta er sannarlega gott og þarft verkefni sem við erum með á prjónunum.