150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

325. mál
[14:29]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason.

Í 1. gr. frumvarpsins segir:

„Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem verður 1. mgr., svohljóðandi:

Tjúgufáninn skal dreginn á stöng alla daga ársins á Alþingishúsinu, Stjórnarráðshúsinu og byggingu Hæstaréttar Íslands kl. 8 að morgni og vera við hún til kl. 21 að kvöldi. Fáni forseta Íslands skal dreginn á stöng við embættisbústað hans og við skrifstofu hans í Reykjavík á sama tíma og vera jafnlengi við hún. Þessa fána skal lýsa upp í skammdeginu.“

Í 2. gr. frumvarpsins segir:

„Lög þessi öðlast gildi 17. júní 2020.“

Frumvarp þetta var áður flutt á 148. löggjafarþingi og 149. löggjafarþingi en þá var málinu vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem sendi málið til umsagnar. Umsagnir sem bárust um málið voru jákvæðar. Umsögn barst frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og í þeirri umsögn segir, með leyfi forseta:

„Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) fagnar framkomnu frumvarpi. ÍSÍ er því fylgjandi að lög um þjóðfána Íslendinga verði rýmkuð en vill þó árétta nauðsyn þess að virðing við þjóðfánann verði ekki skert, hvorki í orði né verki.“

Auk þess barst umsögn frá Íslandsstofu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslandsstofa hefur fengið ofangreint frumvarp til um sagnar og vill koma á framfæri eftirfarandi:

Aukin notkun þjóðfánans styrkir ímynd landsins og er til þess fallin að efla þjóðarvitund.

Íslandsstofa telur efni frumvarpsins því vera jákvætt og hvetur til jákvæðrar afgreiðslu þess.“

Þetta voru þær umsagnir sem bárust þegar frumvarpið gekk til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 149. þingi.

Með frumvarpinu er lagt til að flaggað verði alla daga ársins frá kl. 8 að morgni til kl. 21 að kvöldi á byggingum hinna þriggja arma ríkisvaldsins auk bygginga embættis forseta Íslands, þ.e. við forsetasetrið á Bessastöðum og skrifstofu forseta á Sóleyjargötu. Auk þess er lagt til að fáninn verði lýstur upp í skammdeginu.

Herra forseti. Áhugi landsmanna á sögu íslenska fánans hefur aukist nokkuð á síðustu misserum ef marka má fjölda fyrirspurna sem hafa borist Vísindavef Háskóla Íslands. Ætla má að hinn aukni áhugi tengist fullveldisafmælinu og er það vel. Með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918 viðurkenndu Danir fullveldi Íslands. Á hádegi þann dag var klofinn fáni dreginn að húni á fánastöng Stjórnarráðshússins, eins og áður segir. Slíkur fáni nefnist einnig tjúgufáni en tjúga er annað orð yfir gaffal eða heykvísl. Fáninn sem dreginn var að húni 1. desember 1918 var sá sami og við notum í dag, heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í þeim hvíta. Blái liturinn var reyndar ljósari en við erum vön og varð ekki dekkri fyrr en árið 1974.

Um liti fánans var fjallað í konungsúrskurði sem gefinn var út 30. nóvember 1918. Sömu litir höfðu einnig verið tilgreindir í konungsúrskurði frá 19. júlí 1915. Litatillagan var önnur af tveimur sem svokölluð fánanefnd lagði fram 1913. Þessa fánahugmynd hafði Matthías Þórðarson, þá þjóðminjavörður, fyrst sýnt níu árum áður á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur 27. september 1906. Í grein í tímaritinu Valurinn 12. október 1906 er sagt frá fundinum. Þar er fána Matthíasar lýst og útskýrt hvað litirnir eiga að tákna. Með leyfi forseta:

„Á fundinum sýndi Matthías Þórðarson prýðisfallegan fána sem hann hafði dregið upp. Var það hvítur kross í blám feldi með rauðum krossi í miðjunni og átti að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn. Gast mönnum hið besta að fána þessum og þykja oss miklar líkur til að menn komi sér saman um að velja hann.“ — Þennan fróðleik er hægt að finna á vef Stjórnarráðsins og Vísindavef Háskóla Íslands.

Ef við berum okkur saman við margar aðrar þjóðir höfum við verið með fremur stífar reglur um fánatíma og notkun fánans almennt. Að mati Bandalags íslenskra skáta hefur virðing fyrir fánanum farið vaxandi og landsmenn farnir að nota hann talsvert meira en var. Engu að síður nota Íslendingar fánann lítið, nær eingöngu á fánadögum, sem eru ekki nema 12 á ári, og á knattspyrnuleikjum. Skátarnir hafa hvatt til notkunar á íslenska fánanum. Segja má að skátarnir séu sérstakir varðmenn fánans og fyrir það ber að þakka. Það er mat skátanna að staða fánans hafi verið að styrkjast og er það jákvætt. Fáninn okkar er fallegur og hefur engar neikvæðar tengingar.

Í þessu samhengi má nefna að það væri tilvalið að skátarnir tækju að sér að fræða landsmenn um notkun fánans, hvernig draga skuli hann að húni o.s.frv. Ríkisvaldið gæti styrkt skátana til þeirra verka. Vissulega eru til skriflegar leiðbeiningar um notkun fánans en það er að mínum dómi of algengt að ekki sé rétt með farið eins og t.d. þegar hann er dreginn í hálfa stöng.

Rétt er að skoða aðeins í samhengi þessa máls hvaða reglur og hefðir gilda í nágrannalöndum okkar þegar kemur að fánanotkun á opinberum byggingum. Hvað fánatíma snertir er það almennt þannig meðal Norðurlandaþjóðanna að fánatíminn er frá kl. 8 á morgnana til kl. 21 og horft er til þessara tímamarka í frumvarpinu. Á konungshöllinni í Svíþjóð er flaggað alla daga og við þinghúsið. Fánarnir eru teknir niður við sólsetur, þó ekki seinna en kl. 21, eins og lagt er til í þessu frumvarpi. Í Noregi er flaggað alla daga við Stórþingshúsið og fáninn dreginn niður við sólsetur, þó ekki síðar en kl. 21.

Það má segja að þetta frumvarp sé svolítið í anda þeirra reglna og hefða sem gilda hjá nágrannaþjóðum okkar, sem við berum okkur gjarnan saman við.

Herra forseti. Sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga fylgdi einnig barátta fyrir íslenskum fána. Hann er því táknmynd sjálfstæðisbaráttu okkar og fullveldis. Það er vel við hæfi að við gerum fánann okkar sýnilegri á byggingum hinna þriggja arma ríkisvaldsins, auk bygginga forseta Íslands. Með því að flagga alla daga ársins á Alþingishúsinu, á Stjórnarráðsbyggingunni, byggingu Hæstaréttar Íslands auk bygginga forseta Íslands aukum við veg fánans og sýnum honum meiri virðingu, sömu virðingu og við sýnum landi okkar, náttúru og menningu.

Að þessu sögðu, herra forseti, lýk ég máli mínu og vísa málinu til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.