150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

frumvarp um tengda aðila í sjávarútvegi.

[15:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út af frumvarpi sem hann lagði nýlega fram í samráðsgátt stjórnvalda um tengda aðila í sjávarútvegi. Það hefur auðvitað verið mikil umræða um þá miklu samþjöppun sem orðið hefur á eignarhaldi í sjávarútvegskerfinu þar sem á fáum árum hafa tíu stærstu fyrirtækin ásamt tengdum aðilum, sem telja mætti í það minnsta tengda aðila, þ.e. eiga verulega eignarhluti hver í öðrum, eignast yfir 60% af veiðiheimildum og 25 stærstu fyrirtækin, aftur ásamt þeim aðilum sem telja mætti til tengdra aðila, í það minnsta myndi almenningur telja þau fyrirtæki til tengdra aðila, eru komin með yfir 80% veiðiheimilda.

Það verður hins vegar að segjast eins og er þegar frumvarpsdrög hæstv. ráðherra eru lesin að þau minna frekar á prófarkalestur á fyrirliggjandi lögum. Það eru einhverjar breytingar á kommum og punktum en það er í raun og veru engin efnisleg breyting á því hvað teljist til tengdra aðila og hvað ekki og ekki séð að þetta frumvarp taki með nokkrum hætti á þeirri umræðu eða þeim vanda sem fylgt hefur aukinni samþjöppun. Það er því nærtækast að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ánægður með þennan prófarkalestur eða hvort það megi búast við einhverjum meiri metnaði í þessu máli þegar frumvarpið kemur hér væntanlega fyrir Alþingi.

Þessu tengt er auðvitað óhjákvæmilegt að spyrja þegar við horfum t.d. til þess að hjá skráðum hlutafélög er 30% eignarhlutur talin vera brotmörkin þar sem fyrirtækin verða yfirtökuskyld, þar sem þau teljast vera svo ráðandi í rekstri fyrirtækis að þau eigi að leggja fram yfirtökutilboð til annarra hluthafa. Við byggjum enn á þeirri úreltu hugsun að fyrirtæki þurfi að eiga meiri hluta í öðru fyrirtæki til að teljast stýra því og það á ekki að breyta neinu þar um í þessum frumvarpsdrögum. Telur hæstv. ráðherra það ásættanlegt að þau tíu fyrirtæki sem eiga orðið liðlega 60% heimildanna geti svo jafnframt átt 49% hvert í öðru?