150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að það yrði að byggja á hagspám en fyrr má nú vera þegar ekkert er horft til varúðarorða frá fjölmörgum aðilum, líka stjórnarandstöðunni, og óveðursskýin hrannast upp, en það er keyrt áfram á fullu. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri stöðu sem við höfum varað við og við verðum að vega upp á móti niðursveiflunni með því að ráðast í innviðauppbyggingu og auðvitað er af nógu að taka. Jafnvel í sögulegum uppgangi síðustu ára voru innviðirnir nefnilega látnir drabbast niður og á sama tíma var ekki safnað forða heldur beinlínis gefnir eftir, að nauðsynjalausu, stórir og mikilvægir tekjustofnar, ólíkt því sem hæstv. ráðherra talaði um hér áðan, og fyrir vikið stöndum við einfaldlega frammi fyrir miklu flóknara verkefni en ella. Við þurfum bæði að ráðast í þessa nauðsynlegu uppbyggingu til að vega á móti kólnandi hagkerfi en við þurfum líka að verja velferð almennings. Þá skiptir töluverðu máli í hvaða fjárfestingar verður ráðist og hvernig þær verða fjármagnaðar. Ríkisstjórnin hefur gefið í skyn að hún ætli að fjármagna það með útsölu á bönkum, jafnvel á tíma þar sem ljóst er að við fáum lítið fyrir þá og almenningur hefur engan áhuga á því. Auðvitað væri skynsamlegra núna að nota hagstæðar aðstæður og taka frekar lán.

Tækifæri felast í þessu verkefni og við verðum líka að horfa á óefnislega hluti og styðja menntakerfið, nýsköpun, rannsóknir og þróun og síðast en ekki síst sýna síðustu dagar okkur að við þurfum fyrst og fremst kannski að huga að því að fjárfesta í fólkinu í landinu og verja það fólk sem hallast stendur fyrir kólnun efnahagslífsins sem fram undan er og það verður erfitt verkefni.