150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

aðgengi hælisleitenda að almenningssamgöngum.

343. mál
[17:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli og hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Efnislega hef ég ekki mikil smáatriði að koma inn á. Ég kem hingað aðeins til að segja að ég efast um að margir þjóðfélagshópar séu viðkvæmari og í viðkvæmari stöðu en fólk sem bíður eftir úrskurði ef það er hælisleitendur. Mér finnst það skylda okkar út frá því að vera mennsk að gera allt hvað í okkar valdi stendur til að gera stöðu fólks í slíkri stöðu sem bærilegasta, hvort sem það felst í auknum strætómiðum hingað eða þangað, bíómiðum, leikhúsmiðum eða hvað það er. Ímyndum okkur að vera í þessari stöðu og veltum fyrir okkur hvernig við myndum vilja haga tíma okkar.