150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

endurskoðun á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

400. mál
[17:33]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég segi vil ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held að það sé rétt hjá þingmanninum að þegar við tölum um lög sem eru 80 ára gömul og hafa ekki fengið heildarendurskoðun væri jákvætt að fara ofan í þau. Þess vegna erum við að hefja samtal við aðila vinnumarkaðarins um þennan þátt. Við höfum lagt áherslu á að klára fyrst það sem lýtur að beinum aðgerðum sem tengdust lífskjarasamningunum. Forystumenn ríkisstjórnarinnar ræddu það nýverið við forystu verkalýðshreyfingarinnar að við vildum hefja sem fyrst þá vinnu sem lýtur að grænbókinni.

Varðandi fullgildingu á samþykktinni tekur ráðherrann þá hvatningu sem kemur frá þingmanninum til að hefja skoðun. Mögulega getum við gert það í gegnum grænbókina. Með þeirri tillögu sem samþykkt var af hálfu ríkisstjórnarinnar og kom inn eftir samtal á milli aðila vinnumarkaðarins segir að grænbókin verði lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar. Við erum búin að skuldbinda okkur til þess að hefja samtal við aðila vinnumarkaðarins. Ég held að það sé bara mjög gagnlegt. Þingmaðurinn kemur líka inn á sveigjanleikann í atvinnulífinu. Margt hefur gerst í íslensku atvinnulífi á 80 árum og ég held að það sé óhætt að fullyrða að ekki sé sama þörf fyrir þennan sveigjanleika og þurfti fyrir 80 árum. Þó að við séum alltaf að tala um að við höfum ekki náð stöðugleika í hinu eða þessu hefur okkur samt á síðustu áratugum tekist að skapa meiri stöðugleika í íslensku samfélagi en var þegar þessi lög voru skrifuð fyrir 82 árum.

Ég þakka þingmanninum fyrir og ráðherrann tekur þessa hvatningu frá hv. þm. Guðjóni Brjánssyni með sér í ráðuneytið.