150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Það brenna eldar víða í heilbrigðiskerfi okkar þessa dagana. Það er á engan hátt gert lítið úr vandanum víða þótt fullyrt sé að ástandið á bráðamóttöku Landspítalans sé komið á þann hættustað að það verður einfaldlega ekki lengur við unað. Þessi staða kemur ekki á óvart. Við búum því miður við stjórnvöld sem hafa unnið þannig að málefnum í okkar opinberu heilbrigðisþjónustu að flestallt snýst um rekstrarform einstakra aðila innan kerfisins. Við búum við stjórnvöld sem setja sjálfan þjónustuþáttinn, nýliðun og meðferð fjármuna skör neðar en slagi í við þann hluta heilbrigðisstétta sem vill nýta þekkingu sína og krafta í að auka fjölbreytni og nýsköpun.

Á dögunum láku í fjölmiðla fréttir af þjónustukönnun sem Sjúkratryggingar Íslands létu vinna um heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu undir lok síðasta árs. Það er merkilegt að þær niðurstöður voru ekki kynntar strax og þær lágu fyrir þar sem þær sýna jákvæðar fréttir hvað varðar traust til heilsugæslunnar og ánægju með þjónustuna. En það var fleira í könnuninni, atriði sem eru sannarlega ekki byr í segl þeirrar ríkisvæðingarstefnu sem ríkisstjórnin rekur nú af fullum þunga. Sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar með sína 55.000 skjólstæðinga komu nefnilega óþægilega vel út. Um könnunina var þagað þunnu hljóði þar til fjölmiðlar komust í málið.

Undanfarin ár hafa allar heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu verið fjármagnaðar eftir sama kerfi, þ.e. í orði en ekki á borði. Staðreyndin er að heilbrigðisyfirvöld hafa sýnt töluverða útsjónarsemi í því að veita fjármagn fram hjá kerfinu inn í ríkisreknu stöðvarnar. Samkeppniseftirlitið hefur beint tilmælum til úrbóta til heilbrigðisráðherra án viðbragða. Hið vökula auga ríkisvæðingar ríkisstjórnarinnar gætir þess hér að ekki verði gerð bragarbót á. Almannahagsmunum væri hins vegar betur borgið með því að augu og athygli ríkisstjórnarinnar væru á öðrum þáttum heilbrigðiskerfisins. Almannahagsmunum væri betur borgið með ríkisstjórn sem væri frekar í því að slökkva elda en að kveikja þá.