150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[16:58]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Hér er þingsályktunartillaga um eitt þessara pólaríserandi mála samfélagsins. Ég hef gríðarlega samúð með öllum hliðum þess máls, ég hef samúð með Reykjavíkurborg og íbúum hér sem vilja sjá borgina sína stækka og þróast og ekki síst þéttast. Ég hef líka sem notandi Reykjavíkurflugvallar, bæði sem farþegi og svo flugmaður, mikinn skilning á því að það þurfi einhverja lausn sem þjónar hagsmunum þeirra sem nota flugvöllinn. Það er ágætt að fá þessa tillögu að vissu leyti. Ég er fullkomlega sammála því sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson setti út á tillöguna, það eru vandamál við formið. Þó að það sé gagnrýni sem á kannski ekki efnislega við umræðuna um það hvað eigi að gera við Reykjavíkurflugvöll er mikilvægt að við eigum samtal um eðli þjóðaratkvæðagreiðslna og kannski ekki síst fyrirbærið ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að í gegnum tíðina hafa þær svo oft verið hunsaðar af stjórnvöldum þegar þær henta ekki.

Ég er ekki á móti þjóðaratkvæðagreiðslum en við skulum líka átta okkur á nokkrum hættum við þær. Þær eru stundum notaðar, ég tel reyndar að svo sé ekki í þessu tilfelli, til að búa til fjarvistarsönnun fyrir pólitískt skoðana- eða viljaleysi. Þær eru stundum notaðar til að afvegaleiða umræðu og þær eru stundum hafðar til að búa til núning eða skapa samningsstöðu í krafti almannaróms. Í öllum þessum tilfellum eru vandamál og því er alltaf betra að tillögur séu bindandi í þeim tilgangi að þá sé skýrt að þetta sé ekki bara pólitískur leikur.

Það er samt ekki hægt að gagnrýna þessa tilteknu tillögu eða spurninguna sem á að bera upp, það er ekki hægt að vera á móti henni vegna þess að það sem í þessu felst er að ekki sé kippt úr sambandi gríðarlega stórum og mikilvægum innviðum þjóðarinnar fyrr en eitthvað annað er komið í staðinn. Að vera á móti þessu orðalagi væri svolítið í ætt við það að vera hlynntur því að núverandi Landspítala yrði lokað áður en nýr yrði tekinn í gagnið. Kannski er það ögn ýktara dæmi en af sama meiði.

Ég held því að það þurfi ekki einu sinni þjóðaratkvæðagreiðslu til að taka afstöðu í þessu máli. Allir ættu að sjá að við þurfum einhverja endanlega lausn í Reykjavíkurflugvallarmálinu. Við þurfum eitthvert heimili fyrir innanlandsflug, kennsluflug, almannaflug og ekki síst sjúkraflug, enda er þetta mikið notað og skiptir miklu máli fyrir landsbyggðina, fyrir þjóðina í heild og öll þau mögulegu notagildi sem flugvöllurinn hefur.

Það er kjarni málsins. Það er augljóst að við getum ekki leyft flugvellinum að fara fyrr en einhver lausn er komin. Hver lausnin á að vera er það sem mér hefur fundist vanta að einhverjir leitist við að taka pólitíska ákvörðun um. Sumir nefna Hvassahraun og ég held að það sé fullkomið tilefni til að skoða Hvassahraun ítarlega í þessu samhengi. Ég hef séð veðurgögn sem benda til þess að Hvassahraun sé ekki jafn slæmt og sumir vilja meina. Sumir benda líka á aðra valkosti, t.d. minni háttar tilfærslur á flugvellinum eða annað sem myndi skapa hellingslandrými ásamt því að viðhalda því sem er. Svo hefur líka verið bent á, reyndar árum saman, að það er töluverð mengun undir flugvellinum vegna þess hvernig hann var byggður á sínum tíma. Þetta eru vandamál sem tengjast veru bandaríska heraflsins hér á sínum tíma og er mengun bæði undir Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli og úti á Lönguskerjum svo eitthvað sé nefnt. Í öllum samtölum um að færa flugvöllinn eða fjarlægja hann verður að vera einhver niðurstaða um það hvernig við hreinsum svæðið og hver skuli borga fyrir það.

Þetta mál er þess eðlis að það eru hundruð eða þúsundir hagsmunaaðila úti um allt land. Margir í Reykjavík vilja sjá borgina þróast og breytast, margir á höfuðborgarsvæðinu nota flugvöllinn jafnvel vikulega, meira að segja daglega í einhverjum tilfellum, en jafnframt er fullt af fólki á landsbyggðinni sem þarf að hafa greiðan aðgang að höfuðborginni í alls konar tilfellum. Þessi tillaga þarf að skoðast í því samhengi að hún er hluti af því samtali hvað eigi að gera. Hvernig væri ef við settumst niður, tækjum ákvörðun, fjármögnuðum hana og kæmum henni í framkvæmd í staðinn fyrir að halda viðstöðulaust áfram því pólitíska þrátefli sem er núna búið að standa yfir í áratugi? Það mætti semja við Reykjavíkurborg um einhvers konar niðurstöðu til skemmri tíma, það væri jafnvel einhver sem hefði smábein í nefinu í samgönguráðuneytinu sem tæki þann kaleik að búa til einhverja framtíð. Það er það sem fólk sækist eftir. Ég held að engin eftirspurn sé eftir enn einni þjóðaratkvæðagreiðslunni þar sem niðurstaðan verður hunsuð eins og er alltaf gert hér á landi. Hins vegar er eftirspurn eftir niðurstöðu í þessu máli svo við tökum þessi endalausu þrætuepli af stjórnmálamönnum sem virðast vilja viðhalda þeim til að eiga alltaf eitthvert mál til að búa til tvístrun og pólaríseringu um þegar þannig hentar.

Ég ætla að ljúka þessu hér með þessum orðum. Ég er ekki sannfærður um að þetta sé endilega sú tillaga sem við þurfum. Sú tillaga sem við þurfum er tillaga að niðurstöðu um þetta mál. Ég kalla eftir því að sú niðurstaða verði vissulega í anda þess orðalags sem birtist í þessari tillögu en verum ekki að sóa tíma og peningum í þetta þegar við eigum að vera að nota tímann í að finna endanlega lausn.