150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:08]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er nákvæmlega þetta sem ég er að meina. Þjóðaratkvæðagreiðslan mun ekki breyta aðalskipulagi Reykjavíkur. Ef svo væri væri verið að ganga töluvert inn á skipulagsvald borgarinnar. Það vill þannig til að bæði í minni stjórnmálahreyfingu í borginni og öðrum er alveg sérstaklega viðræðuhæft fólk sem er örugglega alveg tilbúið að eiga samtal um það hvað eigi að gera til skemmri tíma, þótt það séu 13–17 ár, ef það er komin a.m.k. hugmynd um hvað skuli gera. Það sem ég kalla eftir er að búið verði til eitthvert plan, að ekki verði bara búið til enn eitt uppþotið á pólaríserandi hátt um mál sem fólki er heitt í hamsi yfir sem kemur í veg fyrir að raunveruleg ákvörðun verði tekin. Það eru margar leiðir til að taka ákvarðanir í þessu máli, en við erum ekkert að færast nær ákvarðanatöku með þessari tillögu.

Það er fullt í þessari tillögu sem við ættum virkilega að taka mark á, t.d. orðalagið, að við skulum ekki færa eða fjarlægja flugvöllinn fyrr en þá. Besta leiðin til að tryggja það er að eiga samtal við Reykjavíkurborg um það. Ég skil fullkomlega að Reykjavíkurborg ætli ekki að samþykkja að þetta verði á aðalskipulagi sínu til skemmri tíma á meðan ekki liggur fyrir hvað eigi að taka við. Þetta er hluti af samningsstöðu þeirra á sama hátt og það er hluti af samningsstöðu þeirra sem nota flugvöllinn að vera á móti því að gera nokkrar breytingar á stöðu hans.

Að vísu er búið að þrengja töluvert að starfseminni á flugvellinum. Nú má ekki lenda á flugvellinum eftir kl. 23 nema það sé neyðarástand sem er mikil þrenging frá því sem var. Eftir mörgum öðrum leiðum er verið að takmarka aðgengi að flugvellinum en kannski væri ráð að hætta þessum pólitísku leikjum, hætta að búa til pólaríserandi tillögur og fá einhvers konar kjark inn í samgönguráðuneytið til að taka endanlega afstöðu um það hvað eigi að gera á flugvellinum.