150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:36]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna og þá umræðu sem hér hefur verið. Til að árétta það hélt ég að við værum fyrst og fremst í umræðum um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar, og myndum tryggja að hann yrði hér. Hv. þingmanni varð tíðrætt um Hvassahraun og fyrirhugaðar framkvæmdir þar.

Í fyrri spurningu minni til hv. þingmanns óska ég eftir því að förum aðeins yfir söguna. Á sínum tíma, þegar menn voru að velta fyrir sér framtíð vallarins, var tryggt að hann yrði hér til 2022, eins og komið hefur fram, og mig minnir að þáverandi formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi gengið frá því samkomulagi; hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál í því. Varðandi þann þátt sem komið var inn á með samkomulagið milli ríkis og borgar, þ.e. það sem samgönguráðherra og borgarstjóri gerðu, var verið að tryggja að flugvöllur yrði í Vatnsmýrinni næstu 20 árin. Það hefur svo sem líka komið fram í ræðum frá öðrum að farið hafi verið í að kanna hvort hugsanlega yrði hægt að færa völlinn. Ég held að sagan hafi verið svona.