150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:55]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá mikilvægu umræðu sem hér á sér stað um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir hans einlæga og mikla áhuga á þessu máli, að öðrum ólöstuðum sem eru á þessari ágætu þingsályktunartillögu.

Margt hefur verið sagt og komið fram í umræðunni. Ég ætlaði aðeins að koma inn á það sem tengist fyrst og fremst landsbyggðinni í þessu máli. Við höfum nú einu sinni byggt upp hlutina þannig að hér í borg er öll eða næstum öll opinber stjórnsýsla sem tilheyrir íslenskri þjóð og við eigum að reyna eftir fremsta megni að auðvelda íbúum landsins að geta sótt þessa þjónustu með ýmsu móti. Í mínum huga er flugið einna helsti og mikilvægasti þátturinn í því að sem flestir landsmenn geta nýtt sér þá þjónustu sem hér er í boði. Við getum horft til þess að á næstu grösum eða nú í haust á hin svokallaða skoska leið að koma til framkvæmdar. Hún er hugsuð fyrst og fremst til þess að þeir sem búa á landsbyggðinni geti nýtt sér samgöngur í flugi. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að við séum með flugvöllinn sem næst þeirri stjórnsýslu sem er hér í borg, þ.e. í Vatnsmýrinni.

Í þessari umræðu hefur verið rætt um það samkomulag sem samgönguráðherra og borgarstjóri gerðu nýverið þar sem framtíð flugvallarins er tryggð næstu 20 árin og samhliða því verði farið í rannsóknir á fyrirhuguðu flugvallarstæði í Hvassahrauni. Ég lít þannig á að með þessu samkomulagi sé verið að festa enn frekar í sessi framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Það opnar á þann möguleika að loksins sé hægt að hefja uppbyggingu á mannvirkjum í Vatnsmýrinni, sem er vissulega ekki vanþörf á. Þessi þingsályktunartillaga fær vonandi framgang hér innan þingsins og ég trúi því, eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni, að meiri hluti þjóðarinnar sé sammála framsögumanni og þeim sem á málinu eru um að við reynum að tryggja flugvöllinn sem lengst í Vatnsmýrinni.

Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á það í framsögu sinni og fór aðeins út fyrir efnið, ef við getum sagt það, þegar hann fór að ræða um innviðauppbyggingu. Flugvellir landsins eru náttúrlega stór þáttur í innviðauppbyggingu samgangna og þá getum við horft til flugvallanna úti á landi sem eru þó nokkrir. Ef við byrjum á Akureyri, við hv. þingmaður búum báðir við Eyjafjörðinn, þá eigum við að tengja þetta í sjálfu sér allt saman. Við eigum að gera enn meira og fara enn kröftugra í það að tryggja uppbyggingu á þessum flugvöllum, landsmönnum til heilla og einnig þeim sem vilja sækja landið heim.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á það áðan að það hafa verið deilur um það hvort flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni eða ekki og vissulega þurfum við að taka það samtal og við þurfum að eiga það við borgaryfirvöld einnig um að þetta geti orðið svona. Ég trúi því nú að þegar meiri hluti þjóðarinnar vill hafa hann þar áfram — ég vona að ég hafi rétt fyrir mér og geti gefið mér það, ef þessi þingsályktunartillaga kemur til framkvæmda — þá taki menn mark á því. Það er mjög mikilvægt í öllu því sem fram undan er. Við sjáum hvernig þetta þróast, allir þessir þættir sem við erum með, fólk er á ferðinni og væntanlega verður það þannig í framtíðinni að menn koma til með að nýta sér flugið enn meira, t.d. með tilkomu skosku leiðarinnar, því að flug er öruggasti ferðamáti sem til er. Þó svo að veður geti verið válynd og annað eins þá hefur það oftar en ekki komið fyrir í vetur að eina leiðin sem er fær á milli t.d. Reykjavíkur og Akureyrar er flugleiðin. Sama má segja um Egilsstaði. Þetta undirstrikar það hversu framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni er mikilvæg í ljósi alls þess sem við þurfum að sækja hér, allrar þeirrar þjónustu sem við erum búin að byggja upp á þessu landi.

Síðan getum við vent okkar kvæði í kross og horft til þess að sumir segja: Förum burt með völlinn. Þá höfum við landsbyggðarmenn sagt, í hálfkæringi að vísu: Allt í lagi, flytjið flugvöllinn en þá skuluð þið líka flytja alla opinbera þjónustu sem næst þeim flugvelli. Ég held að þá komi til með að heyrast eitthvað annað hljóð í þeim sem vilja flugvöllinn í burtu ef þjónustan sem óhjákvæmilega er hér myndi t.d. fara með flugvellinum. Ég á nú ekki von á því að það verði en aftur á móti er það sjónarmið uppi að nálægðin við uppbygginguna á Landspítalanum er svo mikilvæg, og hv. þingmaður kemur ágætlega inn á það í greinargerðinni, varðandi sjúkraflugið. Þetta þarf allt að haldast í hendur. Ég ætla bara enn og aftur, þó að mér sé ekkert sérstaklega ljúft að hæla Njáli Trausta Friðbertssyni en ætla samt að gera það, að hæla vini mínum fyrir að hafa komið þessu máli áfram. Það eru margir góðir hv. þingmenn á þessu máli og ég vona svo innilega að það komist áfram og fari í þinglega meðferð og við tökum næsta skref og vinnum þetta áfram. Það er búið að tryggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni næstu 20 árin. Höldum áfram og tökum fleiri skref.