150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þess er að geta að við leggjum einungis til lítils háttar breytingar og teljum að það sem hér hefur verið fært fram af eigendum sjávarjarða — að í raun sé ekki verið að ganga á þann rétt. Við höfðum allar þessar umsagnir til umfjöllunar í nefndinni, fengum gesti og ræddum málin fram og til baka og leggjum til að þetta sé með þessum hætti. Við munum hins vegar væntanlega taka málið til nefndar á milli umræðna til að ganga úr skugga um ákveðin atriði.

Kannski kemur það líka fram hér, hv. þingmaður vitnaði í orð mín hvað þetta varðaði, að við teljum að það sem við erum hér að gera breytingar á sé frekar til gagns en ekki. Varðandi 5. gr. er ekki verið, eins og hér stendur, að fella lögin undir svæði sem fellur ekki þegar undir gildissvið laganna, það er bara verið að tala um að málsmeðferðin geti verið með öðrum hætti en á meginlandinu. Ég held að ég get ekki svarað hv. þingmanni betur en hér kemur fram, og það er kannski með þetta eins og margt annað að við getum aldrei sætt öll sjónarmið að fullu. En ég tel ekki að við séum að fara út í einhverja óvissu.