150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka ummæli hv. þm. Birgis Ármannssonar rétt í þessu, að það væri ekki ætlun meiri hluta nefndarinnar að efna til ófriðar gagnvart landeigendum og sérstaklega eigendum sjávarjarða. Þetta er ákaflega mikilvægt innlegg í þessa umræðu vegna þess að það er einmitt það sem er verið að gera með þessari breytingu á lögum í frumvarpinu, það er verið að efna til ófriðar. Það er bara svo einfalt mál. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það hefur komist þokkaleg ró á þjóðlendumálin sem hafa verið mjög umdeild og farið algjörlega fram úr hófi. Það stóð til að það tæki bara fáein ár að fara í þessi mál en þau eru nú orðin rúmlega 20. Í því sambandi má einnig benda á að bændum var lofað því að þeir þyrftu ekki að standa straum af kostnaði við málaferli en það var ekki staðið við það og fjölmargir bændur á lögbýlum hafa þurft að leggja út fyrir umtalsverðum kostnaði sem ekki hefur fengist til baka eins og lofað var. Það er rétt að halda því til haga svo að það komi fram í þessari umræðu.

Hv. þm. Bergþór Ólason rakti hér nokkrar umsagnir sem er mjög mikilvægt að komi fram og ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði áðan þegar hann lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að vinna þetta mál mun betur. Ég fagna því að málið skuli fara á milli umræðna til nefndar aftur. Það er algerlega nauðsynlegt. En það sýnir náttúrlega líka að undirbúningur málsins var engan veginn nægilega vandaður og þess vegna hefur nefndin fengið það í fangið með þessum hætti núna og er að reyna að klóra í bakkann með það að betur verði farið yfir þessa hluti.

Mig langar, herra forseti, aðeins að koma inn á umsögn Landssambands landeigenda á Íslandi og bæta aðeins við það sem hv. þm. Bergþór Ólason kom inn á áðan. Þar segir, með leyfi forseta:

„Enn sé verið að höggva í sama knérunn með því að láta ekki við það sitja að una við málalok á þeim svæðum þar sem óbyggðanefnd hefur lokið yfirferð sinni heldur að opna möguleika fyrir ríkisvaldið á því að halda áfram að vega að einstaklingseignarréttinum á svæðum sem farið hefur verið yfir og sú niðurstaða fengin að þau svæði séu ekki þjóðlendur.“

Það er sem sagt verið að halda áfram þó svo að niðurstaða sé komin. Og hér segir:

„Á þeim svæðum virðist nú eiga að leita að einhverjum glufum sem verið hafa í kröfugerð ríkisins við meðferð þeirra og reyna að stoppa í þær, ríkinu til hagsbóta.“

Það er náttúrlega ótrúlegt að verið sé að leggja í þá vegferð að ríkisvaldið geti ekki einu sinni unað þeirri niðurstöðu sem er komin heldur sé verið að opna fyrir það að halda áfram að þjarma að landeigendum, bændum á lögbýlum o.s.frv.

Ég verð þó að segja að eini jákvæði punkturinn við þetta frumvarp er kannski að það er verið að rýmka heimildir landeigenda til að bera úrskurði óbyggðanefndar undir dómstóla og fá mál endurupptekin fyrir nefndinni. Þetta hefur lengi verið baráttumál Landssamtaka landeigenda á Íslandi en í umsögn þeirra segir:

„Í 7. gr. frumvarpsins er ákvæði sem ætlað er að auka möguleika landeiganda til þess að endurupptaka óbyggðanefndarmál sem er lokið með þeim hætti að ekki þarf samþykki gagnaðilans, þ.e. ríkisins, til endurupptökunnar auk þess sem lagt er til að frestir til endurupptöku mála hjá nefndinni samkvæmt stjórnsýslulögum verði lengdir. Þetta er jákvætt.“ — Það er rétt að taka undir það að þetta er mikilvægt.

Samtökin segja að tillögur frumvarpsins um að rýmka heimildir ríkisins til að gera á ný kröfur á eignarlönd séu að öllu leyti til hagsbóta fyrir ríkisvaldið. Ef þær nái fram að ganga sé náttúrlega verið að draga úr jafnræði málsaðila en með þeim sé jafnframt verið að rýmka heimildir ríkisins til að auka við kröfur undir rekstri mála hjá óbyggðanefnd og að leggja fram nýjar kröfur eftir að meðferð óbyggðanefndar er lokið. Það er rétt að halda þessu til haga: Eftir að meðferðin er lokið er heimilt að leggja fram nýjar kröfur. Samtökin segja að þessi ráðagerð sé jafnframt til þess fallin að eyðileggja það traust sem myndast hefur milli ríkisins og landeigenda á þeim svæðum þar sem þessi mál hafa gengið í gegn og Landssamtök landeigenda vilja kalla hreinsunareld óbyggðanefndar. Það er í sjálfu sér ágætisorðfæri hvað þetta varðar.

Í umsögninni segir:

„Samkvæmt gildandi lögum getur ríkið ekki lýst kröfum að nýju í land sem áður hefur sætt meðferð óbyggðanefndar en verið úrskurðað eða dæmt eignarland. Það er viðkomandi landeigendum, sem töldu að með meðferðinni fyrir óbyggðanefnd væri nú loks lokið og þeir gætu átt land sitt í friði, mikil raun að þurfa að ganga í gegnum slíkar hremmingar á nýjan leik og að ríkið geti nánast hvenær sem því þóknast gert aðför að eignarrétti þeirra“ — sem er stjórnarskrárvarinn — „á nýjan leik.

Eitt af meginmarkmiðum laganna um þjóðlendur hefur verið það að ekki ríki óvissa um eignarréttarlega stöðu lands en breyting í þá veru sem lagt er til myndi einmitt leiða til hins gagnstæða.“

Ég held að það sjái það allir. Það er að mínu viti alveg ótækt að leggja upp í vegferð með þessum hætti.

Síðan er rétt að geta þess að Landssamtök landeigenda leggja áherslu á 70. gr. stjórnarskrárinnar, um réttláta málsmeðferð, þau sjái ekki að það sé verið að gæta hennar með nokkru móti. Að auki leggja þau áherslu á 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar.

Auk þess vil ég nefna sérstaklega, eins og ég nefndi reyndar aðeins í andsvari við hv. flutningsmann fyrr í þessari umræðu, umsögn Samtaka eigenda sjávarjarða sem gera miklar og alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og einmitt þá breytingu sem snýr að málsmeðferðarreglum óbyggðanefndar í tengslum við úrlausn um landsvæði utan strandlengju meginlandsins. Það er þessi fræga 5. gr. frumvarpsins. Hún heimili óbyggðanefnd að bæta viðbótarþrepi við málsmeðferð í tengslum við landsvæði utan strandlengju meginlandsins og almenninga stöðuvatna, eins og það er nefnt.

Það er verið að útvíkka hlutverk óbyggðanefndar sem menn héldu að væri loksins að taka enda eftir öll þessi ár en það er síður en svo samkvæmt þessu.

Það er einnig mat Samtaka eigenda sjávarjarða að frumvarpið í því formi sem það er núna brjóti í bága við 2. kapítula rekabálks Jónsbókar og 72. gr. stjórnarskrárinnar frá 1944. Þessi ágætu samtök, sem eru fjölmenn, telja að frumvarpið sé ekki í samræmi við stjórnarskrá. Það er alvarlegur hlutur og menn verða að taka slíkar athugasemdir alvarlega. Það furðar mig, herra forseti, að málið skuli vera komið alla leið hingað þegar athugasemdir sem þessar eru enn uppi.

Í 4. kafla greinargerðar með frumvarpinu segir, eins og hv. framsögumaður og þingmaðurinn rakti í sinni ræðu, að gætt verði að ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar, um réttláta málsmeðferð, og 72. gr. stjórnarskrárinnar, um vernd eignarréttar við útfærslu á ákvæði um breytta málsmeðferð vegna landsvæða utan strandlengju meginlandsins og almenninga stöðuvatna. Samtökin telja að þessi fullyrðing standist enga skoðun og það er eitthvað sem verður að fara ofan í saumana á og ég vænti þess að það verði gert í nefndinni.

Samtökin telja mikilvægt að vandað sé til verka og þessar breytingar í frumvarpinu verði ekki til þess að brjóta á stjórnarskrárbundnum rétti landeigenda sjávarjarða. Þau gera alvarlegar athugasemdir við skilgreiningu á hugtakinu „netlög“, þ.e. að miða eigi, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, landamerki sjávarjarða við fjarlægðarreglu eða 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði. Samtök eigenda sjávarjarða telja að þetta sé alls ekki rétt og þarna eigi að miða við 2. kapítula rekabálks Jónsbókar. Þar er miðað við ákveðna dýpt sjávar en ekki fjarlægð frá landi. Samtökin furða sig á vinnubrögðunum við frumvarpið, það sé í raun og veru farið gegn gildandi rétti Jónsbókarlaga frá 1281 um dýptarviðmið sem er fjórir faðmar eða 6,88 metrar út frá stórstraumsfjöruborði sem miða skal við og þau lög séu enn í fullu gildi. Rétt að halda því til haga. Í uppsiglingu sé því í raun bótalaus eignaupptaka af hálfu ríkisins sem sé með öllu óheimil og komi sérlega illa við landeigendur sjávarjarða, sérstaklega í og við Breiðafjörð. — Hér eru mjög alvarlegar athugasemdir á ferðinni.

Síðan vitna samtökin í dóm Hæstaréttar frá 1996, eins og ég rakti aðeins fyrr í umræðunni, að það sé ótvírætt að við ákvörðun netlaga með hliðsjón af fiskveiðirétti landeiganda beri að miða við dýptarreglur Jónsbókar en ekki fjarlægðarregluna eins og lagt er upp með í frumvarpinu.

Að þessu sögðu, herra forseti, er ljóst að það er afar mikilvægt að nefndin taki þetta allt saman til alvarlegrar skoðunar, þær athugasemdir og umsagnir sem hafa borist nefndinni. Ég hef rakið hér tvær slíkar og fleiri þingmenn hafa komið inn á þær, hv. þm. Bergþór Ólason rakti hér einnig umsagnir sem eru á sama veg. Það er mjög brýnt að á þetta verði hlustað vegna þess að það er mikið í húfi og þegar upp er staðið getur þetta valdið, ef ekki er vandað nógu vel til verka, ríkissjóði bótaskyldu og þeim aðilum sem hér eiga hlut að máli miklu tjóni. Ég vænti þess að nefndin leggist nú vandlega yfir þetta og komist að ásættanlegri niðurstöðu.